Geir H. Haarde forsætirráðherra segist vera mjög ánægður með þær hugmyndir sem vinnuhópur um ímynd Íslands hefur lagt fram og að hann telji að þær gefi tóninn fyrir áframhaldandi vinnu að því markmiði að styrkja ímynd Íslands.
„Markmiðið er það að styrkja ímynd Íslands sem er talin vera jákvæð en veikburða og það liggur fyrir að það getur haft ýmsan ávinning í för með sér fyrir þjóðarbúið og ýmsar atvinnugreinar,” sagði Geir við blaðamann mbl.is eftir að skýrsla nefndarinnar var kynnt í dag. „Ég tel að það starf sem nefndin hafi unnið nú lofi mjög góðu og sé líklegt til að skila okkur fram á veginn í þessum efnum með aðferðum sem notaðar hafa verið með góðum árangri hjá öðrum þjóðum.”
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði eftir fundinn að um grófar hugmyndir sé að ræða sem vinna þurfi áfram. „Það á bæði eftir að vinna hugmyndir varðandi skipulagsþætti og inntak áfram og í þeirri vinnu held ég að farið verði nánar út í atriði eins náttúruvernd,” sagði hún. „Lagt er til í skýrslu nefndarinnar að áhersla verði lögð á náttúru og þá held ég að við hljótum að vera að tala um að leggja áherslu á frið á milli náttúru og manna. Ég held það komi bara ekki annað til ,” sagði hún.
Fram kom á fundinum að nefndin leggi til að kjörorðið í markvissri ímyndarsköpun Íslands verði Kraftur, frelsi og friður. Sagði Svafa Grönfeldt, formaður nefndarinnar, að nefndarmenn hefðu velt því fyrir sér hvort umrædd kjörorð væru of væmin en að þetta hafi verið þau hugtök sem aftur og aftur hafi komið upp bæði í samræðum innan nefndarinnar og samræðum nefndarmanna við utanaðkomandi aðila um ímynd landsins.