Bílstjórar mótmæla við ráðuneyti

Ráðherrabílar voru króaðir af í Tryggvagötu.
Ráðherrabílar voru króaðir af í Tryggvagötu. mbl.is/Júlíus

Flutningabílstjórar eru nú í mótmælaaðgerðum utan við ráðuneyti samgöngumála og fjármála og hafa m.a. lokað Tryggvagötu. Ágúst Fylkisson, fulltrúi bílstjóra, sagði að ekki yrði látið af aðgerðum fyrr en búið væri að breyta reglum um hvíldartíma bílstjóra og lækka opinberar álögur á eldsneyti.

Ágúst sagði, að ráðherrarnir hefðu boðað bílstjóra á fund á morgun til að fara yfir málin. Sagði hann að hópur manna væri nú að fara gegnum lög og reglur um hvíldartíma og sagði að allt bent til þess að Ísland ætti að vera undanþegið þeim vegna þess að það sé eyland.

Ráðherrar voru nú á 12. tímanum að kynna skýrslu nefndar um ímynd Íslands í Listasafni Reykjavík í Tryggvagötu. Atvinnubílstjórar hafa lokað þeirri götu og komast bílar Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, því ekki á brott.

Geir sagði, að menn sem fara fram með ofbeldi gegn samborgurum sínum geti ekki vænst þess að á þá sé hlustað af ábyrgum stjórnvöldum. Síðan gengu þau Ingibjörg Sólrún áleiðis til sinna ráðuneyta.

Þess má geta, að stöðumælavörður hengdi stöðumælasekt á annan ráðherrabílinn.

mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert