„Við urðum ekkert sérstaklega varir við þetta en fréttum strax af þessu því við vorum að ferðast um borgina með ýmsum ráðherrum," sagði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sem er staddur í Jemen en al-Qaeda gerði flugskeytaárás á bústaði vesturlandabúa í Borginni Sanaa í gærkvöldi.
„Við vorum að koma frá utanríkisráðherranum og fórum í gegnum alla borgina og sáum ekki sérstaklega mikið af lögreglumönnum eða hermönnum," sagði Össur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Össur mun einnig funda með forsætisráðherra landsins og ræða við hann bæði um samstarf landanna á sviði orkuvinnslu og einnig um umsókn Íslands að öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna.
Össur heldur síðar í dag til Djibúti og síðar áfram til Eþíópíu í sömu erindum.