Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði á ráðstefnu í Færeyjum í dag, að sávarútvegurinn hafi verið og sé burðarás efnahagslífsins á Íslandi. Því sé óhjákvæmilegt að hann lúti lögmálum markaðarins og hvorki geti né eigi að þiggja ríkisframlög, ólíkt því sem gerist í mörgum samkeppnislöndum Íslendinga.
Ráðstefnan fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar í Norður-Atlantshafi. Liðlega þrjú hundruð manns víðs vegar að úr heiminum taka þátt í ráðstefnunni, þeirra á meðal Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Nóbelsverðlaunahafi sem flutti aðalerindi ráðstefnunnar. Gore kemur hingað til lands síðdegis og mun eiga kvöldverðarfund á Bessastöðum. Hann flytur síðan erindi á ráðstefnu í Reykjavík í fyrramálið.
Einar sagði á ráðstefnunni, að það væri alveg ljóst að vöxtur hvalastofna við Norður-Atlantshaf hefði haft neikvæð áhrif á stærð ýmissa fiskistofna og hvalurinn væri í beinni samkeppni við manninn þegar kemur að nýtingu fiskistofnanna. Þess vegna telji íslensk stjórnvöld nýtingu hvala vera óhjákvæmilegan þátt í því að nýta auðlindir hafsins með sem bestum og skynsamlegustum hætti.
Einar sagði, að þrátt fyrir nauðsyn markaðsdrifins sjávarútvegs hafi atvinnugreinin jafnframt miklu byggðalegu hlutverki að gegna. „Það má hins vegar ekki verða til þess að draga úr hvatanum til þess að hagræða og ná betri árangri fyrir sjávarútveginn í heild. Leiðin felst í þvi að taka til hliðar tiltekinn hluta fiskveiðiréttarins og nýta hann undir öðrum formerkjum, án þess þó að takmarka almennt möguleikann til hagræðingar í greininni. Enginn vafi er á því að þessi leið er farsælli en sú að leggja endalausar byrðar á sjávarútveginn í heild, í nafni félagslegra sjónarmiða af einhverju tagi. Þá leið hafa ýmsar þjóðir farið með hörmulegum árangri, eins og mörg dæmi sanna, því miður."
Þá sagði Einar, að til að sem bestur árangur náist þurfi að skilgreina fiskveiðiréttinn. Aðalatriðið sé að rétturinn sé einstaklingsbundinn. Það hvetji til hagræðingar og að menn búi til úr auðlindinni eins mikil verðmæti og kostur er.