Lögreglan á Selfossi fékk nótt eina í síðustu viku tilkynningu frá öryggisfyrirtæki um að verið væri að brjótast inn í grunnskólann á Flúðum. Lögreglumenn brugðust hratt við og fóru á vettvang jafnframt því sem lögreglubíll fór inn á Laugarvatnsveg ef vera kynni að þjófarnir færu þá leið.
Lögreglan segir, að vel hafi borið í veiði því á Laugarvatni komu lögreglumenn að kyrrstæðum jeppa með sprunginn hjólbarða. Í bifreiðinni voru þrír piltar á aldrinum 16 til 19 ára. Í bílnum voru tölvur og annað það sem saknað var úr skólanum á Flúðum og voru mennirnir því handteknir og færðir í fangageymslu. Við yfirheyrslu viðurkenndu þeir innbrotið og þjófnaðinn.
Lögreglan segir, að verðmæti þýfisins hafi verið rétt tæp milljón króna.
Á tímabilinu frá kvöldi miðvikudags 3. apríl til fimmtudags 4. apríl var brotist inn í sumarbústað í byggingu við Vaðhólsbraut 16 í landi múrara í Öndverðarnesi í Grímsnesi. Úr nýbyggingunni var stolið Prefera loftpressu, Worx hjólsög, loftknúinni naglabyssu og 18 V Dewalt borvél. Þeir sem veitt geta upplýsingar um innbrotið eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.