Vísbendingar eru um að hin alvarlega árás sem gerð var á öryggisvörð í 10-11 verslun í Austurstræti í gærmorgun hafi verið hefndaraðgerð sem vísvitandi var beint gegn öryggisverðinum fyrir afskipti af árásarmanninum vegna óláta fyrr um kvöldið. Þetta segir Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri 10-11. Árásarmaðurinn var hnepptur í þriggja daga gæsluvarðhald vegna árásarinnar og er málið í rannsókn lögreglunnar.
Sigurður segir að árásarmaðurinn hafi upphaflega komið reykjandi inn í búðina en verið vísað út. Hafi hann þá sýnt mótþróa svo kalla varð á lögreglu sem fjarlægði hann og veitti honum tiltal í lögreglubíl.
„Stundu síðar kom þessi aðili aftur og vildi hefna sín,“ segir Sigurður. „Öryggisvörðurinn hafði þá brugðið sér út fyrir dyr verslunarinnar og var að beygja sig eftir einhverjum hlut. Þá virðist sem árásarmaðurinn hafi staðið þar tilbúinn með glerflösku sem hann sló öryggisvörðinn með.“
Starfsmaðurinn er nú alvarlega slasaður á gjörgæsludeild Landspítalans. Að sögn læknis á gjörgæsludeild gekkst hann undir aðgerð á höfði í gær og er til eftirlits á deildinni. Hann er þó ekki í öndunarvél.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók árásarmanninn og leiddi hann fyrir dómara með kröfu um gæsluvarðhald. Að sögn lögreglu reyndust áverkar öryggisvarðarins mun alvarlegri en talið var í fyrstu með því að blætt hafði inn á heila.
10-11 verslunin í Austurstræti er opin allan sólarhringinn og segir Sigurður Reynaldsson að hún sé vel mönnuð öryggisvörðum.