Úrvalið meira en spurning um verð

Halldór Runólfsson yfirdýralæknir bendir á að fyrirhugaðar breytingar á lögum um matvæli séu óhjákvæmilegar fyrir Ísland með því að Evrópusambandið er stærsti útflutningsmarkaðurinn fyrir íslenskar fiskafurðir. „Og það er því einfaldlega krafa af hálfu ESB að við tökum í staðinn upp matvælalöggjöf ESB,“ segir hann.

Samkvæmt stjórnarfrumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hina nýju matvælalöggjöf er gert ráð fyrir heimild til hvers konar innflutnings á hráu kjöti sem vottað er af viðurkenndum stofnunum. Halldór bendir þó á að hrátt kjöt hefur í töluverðum mæli verið flutt til landsins um árabil, þrátt fyrir bann þar að lútandi. Ráðherra geti hins vegar leyft innflutning á hráu kjöti að fengnum meðmælum yfirdýralæknis ef vottorð standast skoðun embættisins. „Breytingin með fyrirhuguðu frumvarpi felst í að kjöt frá ESB þarf ekki lengur að sæta skoðun yfirdýralæknis, heldur kemur varan með vottorð frá framleiðanda sem svo aftur er undir eftirliti stofnana í viðkomandi ríki.“

Hvað með kamfýlóbakterinn?

Halldór bendir á þá staðreynd að kjúklingakjöt frá mörgum Evrópulöndum getur verið mengað af kamfýlóbakter og það veldur mestum áhyggjum eins og staðan er nú. „Nú erum við að leita leiða til að fyrirbyggja að fluttur verði inn kjúklingur sem er síðri að gæðum en sá sem framleiddur er hérlendis. Löggjöfin heimilar ekki að íslensk matvælayfirvöld setji kröfur á að innfluttur kjúklingur sé prófaður fyrir kamfýlóbakter en þessi mál eru mjög til umræðu á vettvangi ESB. Norðurlandaþjóðirnar hafa náð tökum á kamfýlóbaktermengun í innlendri framleiðslu. Nágrannaþjóðir okkar vilja eðlilega hafa ráð með að verjast innfluttu kjúklingakjöti vegna mengunar og benda má á að Danir hafa þegar gripið til aðgerða með því að endursenda kjöt til framleiðslulandanna ef varan stenst ekki prófun. Strangt til tekið samræmast slík inngrip ekki meginhugsun matvælalöggjafar ESB um frjálst flæði matvæla. Það eru vissir fyrirvarar í löggjöfinni sem Danir hafa túlkað með fyrrnefndum hætti en það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort inngrip þeirra standist að fullu. Ef þetta gengur upp hjá Dönum geta Íslendingar fylgt í kjölfarið.“Um 7.400 tonn af kjúklingkjöti voru framleidd á innlendum markaði í fyrra og starfa allt að 500 manns í greininni að sögn Matthíasar H. Guðmundssonar formanns Félags kjúklingabænda. Hann telur að nýja löggjöfin muni þrengja að kjúklingabændum og erfitt verði að keppa við aukinn innflutning í verði. „Spurningin er þó hvort verndartollar á innfluttu kjöti verði felldir niður,“ segir hann. „Á það má líka benda að allt kjúklingakjöt frá innlendum framleiðendum er prófað fyrir salmonellu og kamfýólbakter áður en það er sett á markað, en innflutta kjötið er aðeins prófað fyrir salmónellunni. Ég myndi því ætla að gagnvart neytendum væri með auknu erlendu framboði verið að bjóða upp á minni gæði. Spurningin er því hvort neytendur muni velja íslenskt vegna gæðanna eða erlent vegna verðsins. Innlendir kjúklingabændur ættu að geta séð sóknarfæri í að benda á þessa hluti í þeirri samkeppni sem er fyrirsjáanleg.“

Með fyrirhugaðri löggjöf er tekið stórt skref að mati Finns Árnasonar forstjóra Haga en á hinn bóginn eru fyrirvararnir þeir hvernig tollamálum verður háttað. „Þetta kemur til með að auka framboðið af kjöti en lykillinn að því eru tollalækkanir,“ segir hann. „Tollar á innfluttu kjöti hamla því að hægt sé að lækka verðið eins og staðan er í dag. En löggjöfin mun vissulega gefa mikil og fjölbreytt tækifæri í innflutningi á kjöti og hér er um að ræða alveg nýjar víddir á því sviði. En tollarnir verða að lækka til að þetta verði verulega áhugavert fyrir neytendur. Það er eitt að geta boðið vöruna en það selst ekki mikið af henni ef hún er dýr.“

Finnur segir Haga nú þegar með tengsl við kjötframleiðendur í Evrópu og á Norðurlöndum. Muni Hagar flytja inn kjöt frá viðkomandi aðilum, bæði lífræna vöru og hefðbundna á grundvelli nýrrar löggjafar. Hann bendir á að ferskt nautakjöt henti best í flutning þar sem flutningstíminn nýtist í meyrnun. En kjúklingur og svínakjöt sé miklu viðkvæmara fyrir flutningi sem ferskvara.

Í hnotskurn
» Í frumvarpi til nýrra matvælalaga er kveðið á um að leitast skuli við að vernda hagsmuni neytenda og gefa þeim kost á upplýstu vali með tilliti til matvælanna sem þeir neyta.
» Allur innflutningur búfjárafurða, sjávarafurða og lifandi ferskvatns- eða sjávardýra frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal fara um landamærastöðvar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert