Fjallað er um íslensk orkumál í nýjasta hefti bandaríska fréttatímaritsins Newsweek og segir tímaritið, að Bandaríkjamenn geti lært margt af Íslendingum á þessu sviði.
Blaðið segir, að Ísland sé lítil eyja þar sem búi fámenn einsleit þjóð. Þar séu engin kol en víðfeðmir jöklar sem framleiði gríðarlegt magn af vatni sem hægt sé að beisla og framleiða úr raforku. Þar sé einnig mikill jarðhiti.
„Landið er mikil andstæða Bandaríkjanna. En við - og aðrar þróaðar þjóðir- getum dregið dýrmætan lærdóm af Íslandi um hvað getur gerst ef samfélag tekur sig saman um að nýta endurnýjanlega orku með kerfisbundnum hætti," segir blaðið.
Í greininni er m.a. rætt við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, Önnu Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra Bláa lónsins og Jake Siewert, aðstoðarforstjóra Alcoa.