Ensk kona, sem varið hefur undanförnum fjórum árum á hlaupum umhverfis heiminn, varð að fresta lokaáfanga ferðarinnar eftir að hún datt á Íslandi og braut nokkur rifbein.
Konan, sem heitir Rosie Swale Pope og er 61 árs, segist á heimasíðu sinni þurfa að hvíla sig í allt að mánuð áður en hún getur byrjað að hlaupa lokaáfangann frá Skotlandi og heim til sín í Pembrokeshire. Hún kom til Íslands 14. febrúar og er enn hér á landi.
Fram kemur á fréttavef BBC, að Rosie lagði af stað í október 2003 og taldi að ferðin myndi taka tvö ár. Nú hefur hún verið á leiðinni í fjögur og hálft ár og sofið flestar nætur í tjaldi, sem hún dregur eftir sér á vagninum Icebird.
Á vefsíðu sinni segir Rosie, að þegar hún datt í hálku nálægt Mývatni hafi annar vagnkjálkinn rekist í síðu hennar og fjögur rifbein brotnuðu. Hún var flutt til læknis á Húsavík, sem sagði henni, að ef hún tæki því ekki rólega næstu vikurnar væri hætta á að beinin grói ekki eðlilega. Þess vegna ætlar hún að vera í tjaldi við Mývatn þar til hún getur haldið áfram.
Rosie hóf ferðina eftir að eiginmaður hennar, Clive Pope, lést af völdum blöðruhálskrabbameins. Vildi hún vekja athygli á rannsóknum á þessum sjúkdómi og einnig safna fé til munaðarleysingjaheimilis í Rússlandi.