Framtíðarlandið fagnar komu Gore

Al Gore er nú staddur í Svartsengi þar sem hann …
Al Gore er nú staddur í Svartsengi þar sem hann skoðar athafnasvæði Hitaveitu Suðurnesja. mynd/Ellert

Stjórn Framtíðarlandsins hefur skrifað Al Gore, fyrrverandi varaforseta
Bandaríkjanna og handhafa friðarverðlauna Nóbels, opið bréf vegna heimsóknar hans til landsins. Hann fékk bréfið í hendur við komu sína til landsins, í gær.

Stjórn Framtíðarlandsins segist í tilkynningu fagna komu Als Gore til landsins og þakka honum lofsvert framtak hans við að fræða almenning um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra.  Með bréfinu segist félagið síðan vilja benda Gore á þá staðreynd að á síðustu árum hafa álfyrirtæki eins og Rio Tinto Alcan, Alcoa og Century Aluminum beitt miklum þrýstingi til að fá ódýra raforku til framleiðslu sinnar á Íslandi.

Félagið bendi einnig á að orka fengin með beislun jökuláa sé hvorki sjálfbær né endurnýjanleg auðlind þar sem uppistöðulón fyllast af leir á tiltölulega skömmum tíma. Einnig sé ekki að fullu ljóst hver langtímaáhrif jarðhitavinnslu séu á vinnslugetu háhitasvæða og geti hún því ekki talist sjálfbær. 

„Græn orka" á Íslandi hafi að auki verið notuð til að réttlæta hið svokallaða „íslenska ákvæði" í Kyoto samningnum, þ.e. að Íslendingar fái auknar losunarheimildir koltvíoxíðs fyrir stóriðju. Sé það mat stjórnar
Framtíðarlandsins að þetta hafi hindrað alvarlegar umræður um loftslagsmál á Íslandi. Ennfremur hafi það komið inn þeirri ranghugmynd að Íslendingar þurfi ekki að axla ábyrgð í loftslagsmálum með því að draga almennt úr notkun jarðefnaeldsneytis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka