Á laugardag var vígður nýr komusalur í flugstöðinni á Egilsstöðum. Flugstöðin er nú miðuð við 120 þúsund flugfarþega árlega. Flugfarþegar í fyrra voru 157 þúsund talsins og reiknað er með að þeir verði um 100 þúsund árlega, þegar stórframkvæmdunum á Austurlandi lýkur.
Nýbyggingin við flugstöðina er 420 m2, þar af eru um 80 fermetrar undir tollskoðunarrými. Nú er því unnt að skilja komu- og brottfararfarþega að, sem er lykilatriði hvað flugverndarsjónarmið í millilandaflugi varðar.
Pétur K. Maack flugmálastjóri sagði við opnun komusalarins að stækkun flugstöðvarinnar væri þjónustuauki fyrir flugfarþega. Hún væri einnig mikilvæg vegna flugverndarráðstafana Evrópubandalagsins. „Þeir flugfarþegar sem koma til Evrópu frá flugvöllum sem ekki uppfylla kröfur um flugverndarráðstafanir, nefnast óhreinir farþegar. Tekið er allt öðruvísi á þeim farþegum við komu á evrópska flugvelli, en öðrum farþegum. Þeir eru jafnvel leiddir á afvikna staði og grandskoðaðir, enda óhreinir og ekki vill neinn fá fólk inn til sín sem er óhreint. Með flugstöðinni og flugverndarráðstöfunum hefur sá áfangi náðst að farþegar frá Egilsstaðaflugvelli, t.d. Austfirðingar, fara héðan hvorki blautir, hraktir, né óhreinir. Þeir eru einmitt aufúsugestir í hvaða borg Evrópu sem er,“ sagði Pétur.
Ársæll Þorsteinssonar er umdæmisstjóri Flugstoða á Austurlandi og flugvallarstjóri á Egilsstaðaflugvelli. Hann segir alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum afar mikilvægan, ekki síst sem varaflugvöll fyrir flug til Keflavíkur og sé 2/3 hlutar alls flugs þangað skráð með varaflug á Egilsstaði.