Lítill háskóli í mikilli sókn

Hólar í Hjaltadal.
Hólar í Hjaltadal. mbl.is/Skapti

Háskólinn á Hólum í Hjaltadal, minnsti háskóli landsins, stendur á tímamótum. Ekki aðeins vill hann verða stór, heldur hefur hann fengið nýtt ráðuneyti, nýjan forráðamann, sem er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra. Framtíðin er í mótun. Skólinn heyrði áður undir landbúnaðarráðuneytið. Nefnd sem í sitja fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hugar nú að því hvernig efla megi starfsemi Háskólans á Hólum. Formaður hennar er Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri.

Hestarnir vinsælastir

Í Háskólanum á Hólum eru þrjár deildir, m.a. fiskalíffræðideild en starfsemi hennar er að mestu leyti á Sauðárkróki. Hinar tvær eru hestafræðideild og ferðamáladeild. Hestafræðideildin er mest sótt og meira en þriðjungur þeirra sem stunda nám við hana eru erlendir stúdentar.

Skúli Skúlason, rektor Háskólans að Hólum, hefur starfað við Hólaskóla í átján ár, þar af mörg sem skólameistari áður en hann varð rektor. Skúli segir skólann sjálfsprottna rannsóknarstofnun og þannig hafi það í raun komið til að hann varð háskóli. „En aðstaða við skólann er líka afar góð á þeim sviðum sem skólinn sérhæfir sig í. Í dag er skólinn í samstarfi við aðra háskóla í ýmsum greinum. Þetta er lítill en alþjóðlegur rannsóknarháskóli og má nefna að 40% af heildartekjum skólans eru sértekjur, mest vegna rannsókna, “ segir Skúli. „Segja má að rannsóknarstarfið á fiskeldis- og fisklíffræðideild hafi markað upphafið að öflugum rannsóknum við skólann. Til þeirrar deildar hefur stöðugt sótt fólk með þekkingu og vilja til rannsókna sem skilað hefur skólanum og byggðarlaginu verulegum verðmætum.“

Margir langt að komnir

Þótt Háskólinn að Hólum sé vinsæll í byggðarlaginu og mikill þrýstingur hafi verið á að fjölga deildum og kenna þar hefðbundin fög, eins og lögfræði og hjúkrun, hefur rektor ekki talið heppilegt að fara þá leið að gera Hóla að almennum háskóla á þessu stigi. „Við viljum heldur fara í dýptina fyrst og að okkar deildir verði bestar af öllum á sínu sviði. Það held ég sé að takast, eins og aðsókn að skólanum sýnir, þar sem langt að komnir nemendur sækja um og skólinn annar hvergi nærri eftirspurn. Við viljum koma til móts við heimamenn og nú er í undirbúningi stofnun nýrrar deildar. Því er á teikniborðinu að stofna endurmenntunar- og fjölgreinadeild við skólann, vonandi sem allra fyrst,“ segir Skúli. Hægt væri að fjölga nemendum strax miðað við aðsókn.

Skólagjöld eru engin á Hólum enda er skólinn opinber háskóli og fjármagn háð ríkinu. Menntamálaráðherra hefur hreyft því að breytt rekstrarform geti komið til greina.

Í hnotskurn
Hólaskóli - Háskólinn að Hólum eins og hann heitir, varð fullgildur háskóli 2007. Innan við 200 nemendur stunda þar nám en stefnt er að því að þeir verði 300 árið 2010.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert