Háskólinn á Hólum í Hjaltadal, minnsti háskóli landsins, stendur á tímamótum. Ekki aðeins vill hann verða stór, heldur hefur hann fengið nýtt ráðuneyti, nýjan forráðamann, sem er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra. Framtíðin er í mótun. Skólinn heyrði áður undir landbúnaðarráðuneytið. Nefnd sem í sitja fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hugar nú að því hvernig efla megi starfsemi Háskólans á Hólum. Formaður hennar er Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri.
Skúli Skúlason, rektor Háskólans að Hólum, hefur starfað við Hólaskóla í átján ár, þar af mörg sem skólameistari áður en hann varð rektor. Skúli segir skólann sjálfsprottna rannsóknarstofnun og þannig hafi það í raun komið til að hann varð háskóli. „En aðstaða við skólann er líka afar góð á þeim sviðum sem skólinn sérhæfir sig í. Í dag er skólinn í samstarfi við aðra háskóla í ýmsum greinum. Þetta er lítill en alþjóðlegur rannsóknarháskóli og má nefna að 40% af heildartekjum skólans eru sértekjur, mest vegna rannsókna, “ segir Skúli. „Segja má að rannsóknarstarfið á fiskeldis- og fisklíffræðideild hafi markað upphafið að öflugum rannsóknum við skólann. Til þeirrar deildar hefur stöðugt sótt fólk með þekkingu og vilja til rannsókna sem skilað hefur skólanum og byggðarlaginu verulegum verðmætum.“
Skólagjöld eru engin á Hólum enda er skólinn opinber háskóli og fjármagn háð ríkinu. Menntamálaráðherra hefur hreyft því að breytt rekstrarform geti komið til greina.