Al Gore, handhafi friðarverðlauna Nóbels, segir að með hlýnun jarðar aukist allar öfgar. Hvort heldur sem um er að ræða þurrka eða úrhelli verða áhrifin sífellt meiri.
Áhrifin eru víðtæk, uppskera bregst vegna veðrabreytinga og sjúkdómar, sem ávallt hafa verið til, færast nær. Sjúkdómar sem áður voru til í regnskógunum eru komnir inn á svæði þar sem fjöldi fólks býr. Þetta er þróun sem við verðum að stöðva og getum stöðvað, sagði Gore en hann flutti fyrirlestur í morgun í Háskólabíói.
Jöklar hopa og vötn hverfa
Al Gore benti á áhrifin sem þessar breytingar hafa haft á jökla í heiminum og aðgengi að vatni. Sagði hann jökla bráðna hratt alls staðar í heiminum og það væri ótrúlegt að bera saman myndir af jöklum, sem teknar voru fyrir 25 árum, og nýjar myndir af sömu stöðum. Tók Gore dæmi af Grænlandi þar sem landslagið er að breytast.
Þá sagði hann að vötn, sem áður voru stærstu vötn í heimi, til að mynda í Tsjad, séu horfin, Þessu fylgi, að íbúar flýja heimili sín og mannlegar hörmungar fylgja í kjölfarið líkt og heimurinn þekkir frá Darfúr-héraði í Súdan.
Að sögn Gore má búast við því að á sama tíma og yfirborð sjávar hækkar vegna hlýnunar andrúmsloftsins fari meira land undir sjó og tugir milljóna manna munu lenda á vergangi þar sem heimili þeirra og lífsbjörg eru ekki lengur til staðar. Áhrifin af hlýnun jarðar sjást alls staðar og hafa áhrif á alla, sagði Gore.
Hann sagði að það hljómaði alls ekki illa fyrir fólk á norðurhveli jarðar að loftslagið fari hlýnandi en þótt það sé góð tilhugsun að það vori fyrr og hausti seinna sé það ekki eins einfalt og það hljómar því öll náttúran ruglist í ríminu, plöntur sem og dýr af öllu tagi. Til að mynda hafi hlýnun sjávar þau áhrif að lífríkið breytist í sjónum og fiskurinn hverfur.
-Við megum ekki láta þessi mistök halda áfram og verðum að bregðast við, segir Gore.
Fólksfjölgunin í heiminum heldur áfram og þörfin eftir mat eykst að sama skapi en þróunarlöndunum fjölgar einnig. Mannfjöldasprengjan hefur áhrif á fleiri hluti, til að mynda eru regnskógar á undanhaldi því þörfin fyrir ræktað land fer sífellt vaxandi. Ein helsta aðferðin við að eyða skóglendi og breyta því í ræktað land er að brenna skóginn. En á sama tíma eykst magn koltvísýrings í andrúmsloftinu enn meir því bruni hefur gríðarleg áhrif á aukningu koltvísýrings.
En það er ekki of seint að bregðast við, segir Gore, þótt við höfum ekki óendanlegan tíma því breytingarnar eru ógnvænlegar og hraðar og hraði breytinga verður sífellt meiri.
Gore sagði, að setja verði verðmiða á kolefnanotkun með því að leggja koltvísýringsskatta á mengandi starfsemi. Þrátt fyrir að Bandaríkin, það land sem mengar mest, viðurkenni ekki Kyoto bókunina séu ekki allar borgir og ríki Bandaríkjanna sammála alríkisstjórninni og hafi innleitt bókunina. Allt tekur sinn tíma að sögn Gore og hann minnti á þá tíma þegar konur höfðu ekki kosningarétt og hörundslitur skipti máli varðandi mannréttindi.
Að loknum fyrirlestri sínum svaraði Gore spurningum úr sal en sagði síðan að lokum að þetta sé spurning um siðferði og næstu kynslóðir munu spyrja okkur að því hvað við gerðum og hvað við gerðum ekki við upphaf 21. aldarinnar.
„Þær munu spyrja hvers vegna í ósköpunum brugðumst við ekki við. Komandi kynslóðir, afkomendur okkar, munu spyrja okkur: var ykkur sama um okkur? Skiptum við engu máli?" Segist Gore vilja getað svarað komandi kynslóðum: „jú við brugðumst við."
Al Gore sló einnig á létta strengi í fyrirlestri sínum. Þakkaði hann Íslendingum og þá ekki síst Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, fyrir móttökurnar sem hann hafi fengið hér á landi. Sagði hann Ólaf Ragnar einstakan mann en vinátta þeirra næði tuttugu ár aftur í tímann. Gore sagðist vera viss um að enginn annar þjóðarleiðtogi myndi gera það sama og Ólafur Ragnar í gær. Að bjóða til kvöldverðar þar sem fluttir væru átta fyrirlestrar af vísindamönnum um hlýnun jarðar. Gore tók það fram að fyrirlestrarnir hafi verið mjög áhugaverðir.