Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær Litháa framan við verslun á Nýbýlavegi.
Segir lögreglan að ástæða þess að maðurinn var handtekinn sé sú, að hann er í endurkomubanni hér á landi, en maðurinn var árið 2005 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl og í framhaldi af því var honum vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma fyrir fullt og allt.
Lögreglumenn, sem sátu í lögreglubíl, þekktu manninn þegar hann gekk fram hjá bílnum en lögreglumennirnir voru staddir þarna í öðrum erindagerðum.