Veggjakrotarar á barnaskólaaldri voru gómaðir í Hafnarfirði um helgina. Lögreglan segir, að um hafi verið að ræða tvo pilta sem höfðu að öllum líkindum komist yfir spreybrúsa á heimili annars þeirra en úr brúsanum höfðu þeir úðað á tvö hús, þar af annað íbúðarhús.
Þegar lögreglan kom á vettvang neitaði annar pilturinn með öllu að segja til nafns en hinn var öllu samstarfsfúsari. Faðir þess síðarnefnda bar fljótt að og var honum gerð grein fyrir málinu en að því loknu var haldið á heimili þess fyrrnefnda og rætt við móður hans.
Vel gekk að ná veggjakrotinu af íbúðarhúsinu en óvíst var með hitt húsið.