Verksamningar Bolungarvíkurganga undirritaðir

Kristján L. Möller og Gunnar Sverrisson handsala samninginn.
Kristján L. Möller og Gunnar Sverrisson handsala samninginn. mynd/bb.is

Mikil gleði ríkti í Ráðhúsinu í Bolungarvík í dag þegar skrifað var undir verksamninga um Bolungarvíkurgöng að viðstöddu fjölmenni. Kristján L. Möller, samgöngumálaráðherra, og Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, skrifuðu undir fyrir hönd verkkaupa og frá Íslenskum aðalverktökum þeir Gunnar Sverrisson forstjóri og Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs.

Íslenskir aðalverktakar og Marti contractors voru lægstbjóðendur en tilboð voru opnuð í janúar. Fyrirtækin hafa stofnað með sér fyrirtækið Ósafl sem mun annast framkvæmdina. Um er að ræða 8,7 m breið, 5,1 km löng jarðgöng, byggingu um 310 m langra steinsteyptra vegskála, gerð um 3  km langra vega og byggingu tveggja steinsteyptra brúa á Hnífsdalsá og Ósá. Tilboð verktakanna hljóðaði upp á tæpa þrjá og hálfan milljarð og er 88% af kostnaðaráætlun.

Fram kom í máli Önnu G. Edvardsdóttur, forseta bæjarstjórnar Bolungarvíkur, að dagurinn í dag væri langþráður og í þau tuttugu ár sem hún hefur búið í Bolungarvík hefði verið rætt um jarðgöng til að leysa af hólmi veginn um Óshlíð.

Kristján L. Möller rifjaði upp sín fyrstu kynni af Óshlíðinni en hann var íþróttakennari í Bolungarvík fyrir rúmum þrjátíu árum síðan. Hann sagði það vera gleðilegt fyrir sig, verandi tengdasonur Bolungarvíkur, að skrifa undir þessa samninga fyrir hönd ríkisins en kona hans er frá Bolungarvík. Að endingu óskaði hann öllum viðstöddum til hamingju með daginn og boðaði komu sína í ágúst þegar fyrsta dýnamíthleðslan verður sprengd.

Framkvæmdir hefjast strax í maí en miklu efni þarf að keyra frá munnunum áður en hægt verður að sprengja.

Einnig var skrifað undir samninga um eftirlitsþátt framkvæmdanna en Línuhönnun og Geotech munu sjá um eftirlit.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert