Lögreglan á Akranesi segist hafa aðstoðað illa drukkinn mann við að komast til síns heima seint á aðfaranótt sunnudags. Maðurinn, sem hvorki skildi ensku né íslensku og talaði torkennilegt mál, gat með engu móti munað hvar hann átti heima en teiknaði kort fyrir lögreglumenn og sagðist eiga heima 5-10 km frá göngunum.
Lögreglan segir á vef sínum að ekki hafi tekist að fá manninn til að gefa upp nafn né fæðingardag fyrr en lögreglumenn sungu „Happy Birthday" fyrir hann. Í kjölfarið var flett upp í þjóðskránni og kom þá í ljós að maðurinn átti heima á Akranesi.
Manninum var svo komið að heimili sínu „og gekk hann sæll inn og þakkaði kærlega fyrir sig, eða það var að minnsta kosti talið líklegt miðað við látbragð hans," segir á lögregluvefnum.