Leikskólum og dagforeldrum fjölgað

Borgaryfirvöld í Reykjavík stefna að því að byggja fleiri leikskóla, opna nýjar deildir við eldri leikskóla, fjölga dagforeldrum og bjóða foreldrum upp á nýja kosti í þjónustu við yngstu börnin, s.s. ungbarnadeildir. Borgarbörn gerir ráð fyrir því að árið 2012 verði annað hvort leikskólapláss eða vistun hjá dagforeldrum í boði fyrir öll börn 12 mánaða og eldri.

Þetta kemur fram í aðgerðaráætlun, sem samþykkt var í leikskólaráði í dag. Þar er kveðið á um að foreldrar geti sótt um  þjónustutryggingu til að brúa bilið frá lokum fæðingarorlofs þar til leikskólaganga hefst. Þjónustutrygging er tímabundin greiðsla til foreldra sem er jafnhá niðurgreiðslu til dagforeldra eða 35. 000 krónur.

Segir í tilkynningu að með þessu sé verið að jafna stöðu foreldra þar til barn fær þjónustu dagforeldra eða leikskóla. Greiðslan tryggi jafnræði borgaranna og jafnrétti kynja, að því leyti að gera báðum foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Þá hefur leikskólaráð ákveðið að láta fara fram rannsókn á því hvernig reykvískir foreldrar haga umönnun barna sinna frá því að fæðingarorlofi lýkur og hvernig foreldrar nýta tímabundna þjónustutryggingu. Rannsóknin verður unnin í samstarfi við Rannsóknarstofu í barna- og fjölskylduvernd við HÍ .

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert