Minni sóðaskap, veggjakrot og stríðni - meira af kakósúpu

Stúlkurnar í Rimaskóla sýndu m.a. viðtalsupptökur við lykilmanneskjur í nágrenni …
Stúlkurnar í Rimaskóla sýndu m.a. viðtalsupptökur við lykilmanneskjur í nágrenni skólans síns. Á myndinni eru Sara Rut, Aníta (f. aftan), Katrín Fjóla, Birgitta, Ástrós og Guðrún Stella að kynna erindi sitt.

Of mikið er af veggjakroti og sóðaskap – og strákar þyrftu að stríða minna.

Þessar og margar fleiri athugasemdir komu fram á Barnaþingi sem Miðgarður, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, stóð fyrir í gær.

Krakkar úr Borgaskóla, Foldaskóla, Klébergsskóla, Korpuskóla, Rimaskóla og Víkurskóla tóku þátt í þinginu, sýndu glærur og myndir og sögðu frá hugmyndum sínum.

Fylgdust með af áhuga

Þegar blaðamann bar að garði ríkti mikið stríðsástand, krakkar á hlaupum og mikið fjör enda hafði verið gert stutt hlé á kynningum. En um leið og erindi hófust sló þögn á allan skarann og fylgdust allir með af mikilli athygli. Það var augljóst að ástand borgarinnar og aðbúnaður var viðstöddum mikið hjartans mál.

Ingibjörg Sigurþórsdóttir er framkvæmdastjóri Miðgarðs: „Við höfum haldið barnaþing áður, með þátttöku nemenda í 5. og 6. bekk, og þá fjallað um ýmis málefni, einkum tengd forvörnum. Nú ákváðum við að skoða umhverfis- og skipulagsmál og tengja þingið verkefni borgarinnar, 1, 2 og Reykjavík, þar sem borgarar geta komið á framfæri tillögum og athugasemdum um viðhald og smærri framkvæmdir,“ segir Ingibjörg. „Við vildum leyfa röddum þessa aldurshóps að heyrast: hvernig þau sjá umhverfi sitt og hvað þau vilja bæta.“

Tæknivædd og metnaðarfull

Það vakti athygli hvað fyrirlestrar barnanna voru vandaðir og skýrir. Skólahóparnir voru skipulegir og skilvirkir í erindum sínum og notuðu nýjustu tækni við framsetninguna. Í mörgum tilvikum hafði farið fram töluverð rannsóknarvinna, t.d. skoðanakannanir og viðtöl við fólk í nágrenni skólanna, og teknar höfðu verið myndir af ýmsu því sem krakkarnir töldu þarfnast úrbóta.

Hópur Klébergsskóla frá Kjalarnesi lagði t.d. til að gerð yrðu undirgöng undir þjóðveginn til að auðvelda krökkum aðgengi að útivistarsvæðum Esjunnar. Fulltrúar Rimaskóla sýndu viðtöl við börn, fullorðna, kennara og lögreglu í sínu nágrenni, óskuðu eftir beltum í strætó og öryggisbeltum í rólur á leikvöllum. „Það þarf líka að bjóða oftar upp á kakósúpu og hafa þægilegri stóla og stærri borð í skólastofunum,“ sögðu krakkarnir.

Krökkunum í Korpuskóla leist ekki á sígarettustubba, hunda-, katta- og gæsaskít og rusl á víðavangi. Það væri einnig áríðandi að ganga vel um trjágróður, svo trén gætu fengið að vaxa og verða að stórum og góðum klifurtrjám. Þau vilja líka fá grasvöll fyrir boltaleiki en þau hafa núna bara einn völl til leikja og stundum kemur það fyrir á kvöldin að unglingar boli þeim af boltavellinum.

Hugmyndirnar til borgarstjóra

Hera Hallbera Björnsdóttir, frístundaráðgjafi við Miðgarð, kvaðst vera montin af frammistöðu barnanna á þinginu: „Hugmyndirnar voru alveg frábærar og margt sem mér hefði aldrei dottið í hug sjálfri,“ sagði hún. „Það er líka gaman hvað þau hafa lagt mikinn metnað í vinnuna. Þau fara á vettvang, taka myndir og viðtöl og útkoman rosalega flott.“

Í framhaldinu verður hafist handa við að yfirfara og flokka tillögur krakkanna: „Við setjum þetta saman í eina góða kynningu sem verður lögð fyrir á fundi með borgarstjóra næstkomandi laugardag og í framhaldinu verður hafist handa við að forgangsraða verkefnum. Vonandi munum við svo sjá hugmyndirnar verða að veruleika í hverfunum,“ segir Hera Hallbera.

Í hnotskurn
» Hugmyndir nemenda í 6. bekk verða lagðar fram í átaksverkefninu 1, 2 og Reykjavík.
» Meðal þess sem krakkarnir bentu á voru hentug svæði fyrir lautarferðir og illa upplýstir gangstígar.
» Kynningar nemendanna voru mjög vandaðar og vel skipulagðar og þeir nýttu nýjustu tækni í glærugerð og upptökum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert