Ísland er eina ríkið með lánshæfiseinkunnina Aaa hjá matsfyrirtækinu Moody's þar sem bankarnir eru að meðaltali með lánshæfiseinkunn fyrir fjárhagslegan styrk undir C, segir í nýrri greiningarskýrslu Moody's. Fyrirtækið lækkaði einkunn bankanna úr C í C- í febrúar. Staða bankanna er sögð valda áhyggjum en litlar líkur séu á hremmingum í efnahagslífinu vegna hennar.
„Ríkissjóður er nánast skuldlaus, sem er mikill styrkur fyrir þá sem starfa innan íslenska hagkerfisins. Þess vegna er mikilvægt að halda þeirri stöðu.“
Ísland er sagt koma vel út miðað við önnur iðnríki með sömu lánshæfiseinkunn. Það grundvallist á lágri skuldastöðu hins opinbera, háum þjóðartekjum á mann, sveigjanleika hagkerfisins, tiltölulega lágum meðalaldri þjóðarinnar og öflugu lífeyrissjóðakerfi. Þá sé ríkissjóður vel í stakk búinn til að takast á við hugsanlegar hremmingar, sem einkenni iðnríki með einkunnina Aaa eða Aa.
Moody's telur þó íslenska ríkið ekki koma eins vel út í samanburði við önnur iðnríki vegna þess hve hagkerfið er berskjaldað. Það stafi fyrst og fremst af því hve mikið alþjóðleg umsvif íslensku bankanna hafi aukist á umliðnum árum og af miklum skuldum heimilanna.
» Í skýrslu Moody's er vitnað til þess að fyrirtækið hafi í janúar sl. sagt að Aaa-lánshæfiseinkunn ríkisins væri á krossgötum. Horfum fyrir ríkissjóð hafi þá verið breytt í neikvæðar, sem endurspegli þá hættu sem geti stafað af stöðu bankanna.
» Skuldastaða ríkissjóðs sé þó mjög viðráðanleg. Einkum greini staða bankanna Ísland frá öðrum ríkjum með Aaa-einkunn.