Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag að ganga til samninga við Heilsuverndarstöðina/Al hjúkrun um rekstur á nýju búsetuúrræði með félagslegum stuðningi fyrir allt að 20 einstaklinga. Búsetuúrræðið er samvinnuverkefni velferðarsviðs og félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
Að sögn velferðarsviðs er um að ræða búsetuúrræði fyrir allt að 20 einstaklinga sem hætt hafa neyslu áfengis- og/eða vímuefna en þurfi á umtalsverðum stuðningi að halda til að ná tökum á lífi sínu.
Úrræðinu sé ætlað að veita einstaklingum húsaskjól, félagslegan stuðning og endurhæfingu þannig að hlutaðeigandi einstaklingar geti búið sjálfstætt án vímugjafa og tekið virkan þátt í samfélaginu.