Reykjanesbraut lokuð

Alvarlegt umferðarslys varð við Vogaafleggjara klukkan sex.
Alvarlegt umferðarslys varð við Vogaafleggjara klukkan sex. mbl.is/Július

Alvarlegt umferðarslys varð við Vogaafleggjara á Reykjanesbraut um klukkan 6 í morgun. Lögregla Suðurnesja er með allt tiltækt lið sitt á staðnum. Fyrstu fregnir herma að fimm til sex manns séu slasaðir. Beita þurfti klippum til að ná fólkinu út úr bílflökunum. Reykjanesbraut er lokuð í báðar áttir sem stendur.

Tveir fólksbílar sem mættust á Reykjanesbrautinni munu hafa skollið saman er annar þeirra fór yfir á rangan vegarhelming. Verið er að flytja hina slösuðu á sjúkrahús í Reykjavík. Ekki er vitað hversu alvarlega slasað fólkið er.

Slysið varð þar sem hjáleið er á Reykjanesbrautinni vegna vegaframkvæmda. Færðin er slæm, hálka og snjór á veginum. Að sögn varðstjóra lögreglunnar á Suðurnesjum virðist þessi hjáleið vera slysagildra.

Ekki er vitað hvenær unnt verður að opna brautina fyrir umferð. Miklar raðir hafa myndast í báðar áttir og þykir víst að einhver seinkun verði á flugi. Lögreglan segir að ekki sé um neinar hjáleiðir að ræða því bílflökin standi á miðjum veginum og biður fólk um að sýna biðlund á meðan rannsókn málsins fer fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert