Gríðarlegur fögnuður braust út þegar risabor Impregilo rauf síðasta berghaftið í Jökulsárgöngum austan Snæfells um hádegisbil í dag. Kínverski borflokkurinn kom út í gegnum krónu borsins þegar komið var í gegn og var skálað í kampavíni.
Aðeins skeikaði 10 sentimetrum, að borkrónan hitti í gatið samkvæmt mælingum og þykir það afbragðsgott.
Síðar í dag verður slegið í gegn í Kelduárgöngum Hraunaveitu en þau voru boruð og sprengd með hefðbundnum hætti.
Þrír risaborar hafa verið í heilborun aðrennslisganga virkjunarinnar, sem flytja vatn úr Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fljótsdal til stöðvarhúss virkjunarinnar, Fljótsdalsstöðvar.