Síðasta kerið gangsett í álveri Alcoa

Kerskáli Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Kerskáli Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Reuters

Síðasta rafgreiningarkerið var gangsett hjá Alcoa Fjarðaáli í Reyðarfirði í dag. Fyrirtækið segist ætla að fjölga starfsmönnum á næstu vikum vegna aukinna verkefna,  meðal annars vegna fullvinnslu áls, en um 20 manns starfa við framleiðslu álvíra hjá fyrirtækinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Alcoa Fjarðaáli verður útflutningsverðmæti framleiðslunnar rúmlega 70 milljarðar króna á ári miðað við núverandi heimsmarkaðsverð á áli og gengi Bandaríkjadals. 

Kerin í álverinu eru 336 og í þeim eru framleidd um 940 tonn af áli á sólarhring, en afkastageta álversins er 346.000 tonn á ári. Um 70 erlendir sérfræðingar frá Alcoa sem hafa aðstoðað við gangsetninguna hverfa nú til síns heima.

Starfsmenn Fjarðaáls eru nú 410 og er um þriðjungur þeirra konur. Um 50% starfsmannanna eru frá Austurlandi og um 20% til viðbótar eru brottfluttir Austfirðingar sem hafa nýtt tækifærið og snúið aftur til starfa í heimabyggð. Annað starfsfólk kemur víðs vegar að af landinu. Um 20% starfsmanna eru með háskólagráðu, önnur 20% með iðnmenntun og 60% er með margvíslega aðra menntun og reynslu. Ríflega helmingur starfsmanna er innan við fertugt og um 5% yfir sextugu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert