Staða jafnréttismála best hjá Akureyrarbæ

Hótel KEA á Akureyri.
Hótel KEA á Akureyri. mbl.is/Kristján

Akureyrarbær er það sveitarfélag á Íslandi þar sem mest jafnrétti ríkir, samkvæmt niðurstöðum Jafnréttisvogarinnar, Evrópuverkefnis sem stýrt var af Jafnréttisstofu. Þetta kom fram á málþingi sem Jafnréttisstofa stendur fyrir á Hótel KEA í hádeginu í dag.

Kynntar voru íslenskar niðurstöður Jafnréttisvogarinnar, en þar var staða jafnréttismála mæld hjá sveitarfélögum í fimm löndum. Á fundinum var meðal annars skýrt frá því hvaða sveitarfélög eru að standa sig best í jafnréttismálum, miðað við mælikvarða verkefnisins.

Jafnréttisstofa segir, að ástæður þess að Akureyrarbær fékk hæstu einkunn séu meðal annars jafnt hlutfall kynjanna í bæjarstjórn, jafnt hlutfall kynjanna í nefndum og ráðum, og sú staðreynd að bæjarstjórinn sé kona. Auk þess komi bærinn vel út hvað varðar dagvistun barna á aldrinum 1-5 ára og ágætlega hvað varðar hlutfall kynjanna í íbúafjölda.

Tæki til að mæla jafnrétti
Tilgangur verkefnisins var að gera stöðu jafnréttismála sýnilega og aðgengilega almenningi. Spurningar sem varða hlutfall kvenna og karla í stjórnunarstöðum, atvinnuþátttöku kynjanna og þátttöku kynjanna í ákvarðanatöku voru sendar til sveitarfélaga. Þátttakendur í verkefninu voru, auk Íslands, Búlgaría, Finnland, Grikkland og Noregur. Auk samanburðar á milli sveitarfélaga innanlands er því hægt að bera saman niðurstöður á milli landanna. Niðurstöðurnar eru birtar á heimasíðu verkefnisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert