Norrænu forsætisráðherrarnir segjast í yfirlýsingu, sem send var út eftir fund þeirra í Norður-Svíþjóð í dag, stefna að því að efla norrænt samstarf enn frekar til þess að mæta áskorunum hnattvæðingarinnar. Lykilatriði sé að gera Norðurlönd að sameiginlegu markaðssvæði með sterka samkeppnisstöðu.
Í yfirlýsingunni segja ráðherrarnir, að til að ná því markmiði hafi þeir náð samkomulagi um að leggja enn meiri áherslu á að ryðja öllum stjórnsýsluhindrunum úr vegi á norrænum landamærum og veita fólki, fyrirtækjum og stofnunum betra tækifæri til að ná fótfestu á sameiginlegum norrænum markaði.
Þá segir í yfirlýsingunni, að loftslags- og orkumál séu nátengd hnattvæðingunni. Norðurlönd eiga góða möguleika á því að verða leiðandi í aðgerðum gegn loftslagsvandanum. Ráðherrarnir vilji því útvíkka norrænt samstarf til að geta sem best undirbúið og leitt samninga um alþjóðlegan loftslagssáttmála á árinu 2009.