Fulltrúar íbúa í Þorlákshöfn afhentu Heilbrigðiseftirliti Suðurlands í dag undirskriftir 527 kosningabærra íbúa í bænum þar sem því er mótmælt, að starfsleyfi hausaverkunar Lýsis hf. verði endurnýjað.
Núverandi leyfi rennur út í júní. „Við óttumst að leyfið verði sjálfkrafa endurnýjað án þess að nokkrar úrbætur verði gerðar á verksmiðjunni og lyktarmengun, sem stafar frá henni, verði viðvarandi," segir Guðmundur Oddgeirsson, talsmaður undirskriftasöfnunarinnar.
Hann segir að Lýsi sé þarna umhverfissóði og síbrotafyrirtæki í umhverfisþáttum og starfsemi fyrirtækisins hamli eðlilegri uppbyggingu í bænum. „Fyrirtæki hafa verið að skila inn lóðum og fólk sem verið hefur í íbúðakaupahugleiðingum hefur snúið við þegar það hefur hitt á slæman fýludag. Þetta fer einnig mjög illa í börnin á staðnum, sem finnst mjög erfitt að réttlæta þessa lykt fyrir vinum sínum, sem koma í heimsókn."
Óskað hefur verið eftir fundi með umhverfisráðherra vegna málsins. Ráðuneytið stytti á síðasta ári starfsleyfi, sem Heilbrigðisneftirlit Suðurlands veitti Lýsi í Þorlákshöfn, úr fjórum árum í eitt og hálft ár.