Það er nauðsynlegt fyrir sjálfstæði þjóðarinnar að áfram verði tryggt að Íslendingar geti byggt upp sinn iðnað með umhverfisvænum orkugjöfum og þannig lagt sitt af mörkum til umhverfismála á heimsvísu. Þetta sagði Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í utandagskrárumræðum um samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum á Alþingi í gær og vildi skýrar yfirlýsingar frá stjórnvöldum um hvort íslenska ákvæðið svonefnda yrði meðal markmiða.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sagði engin ríki hafa formlega lagt fram tillögur með tölulegum skuldbindingum við samningaborðið enda væri samningaferlið rétt að hefjast. Það væri stefna Íslands að vera í hópi þeirra ríkja sem vilja að iðnríkin fari fram með góðu fordæmi á næsta skuldbindingatímabili, þ.e. fram til 2020.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði það hljóta að vera stefnu ríkisstjórnarinnar að byggja á íslenska ákvæðinu, sem hann benti þó á að væri ekki sérstakt íslenskt ákvæði. Það næði til fleiri ríkja og byggði á kröfu um endurnýjanlega orku og að notkun hennar leiddi til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum.
Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, efaðist um að hugur fylgdi máli hjá ríkisstjórninni þegar kæmi að góðum markmiðum í loftslagsmálum enda væri ósamræmi milli yfirlýsinga Þórunnar og annarra ráðherra. Flest annað en að draga úr losun hér heima fyrir virtist talið mikilvægt, ef marka mætti orð ráðherranna.