Evruvæðing atvinnulífs metin

Stjórn Samtaka atvinnulífsins hefur ákveðið að setja á laggirnar nefnd sérfræðinga til þess að meta möguleika á evruvæðingu atvinnulífsins sem felur í sér að einkaaðilar noti ervuna sem gjaldmiðil í öllum viðskiptum sín á milli.

Segja samtökin, að veik samkeppnisstaða krónunnar hafi ýtt mjög undir umræður innan atvinnulífsins um hvort íslenska krónan eigi yfirleitt framtíð fyrir sér sem gjaldmiðill þjóðarinnar.

Í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins, sem kom út síðdegis, segir framkvæmdastjórn samtakanna, að enn og aftur hafi Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti sína, nú í 15,5%, og enn og aftur sé það misráðin ákvörðun af hálfu bankans.

„Seðlabankinn hefur alveg litið fram hjá því við vaxtaákvarðanir sínar á undanförnum misserum að íslenska fjármálakerfið verður sífellt alþjóðlegra og tengdara erlendum fjármálamörkuðum. Sú staðreynd hefur dregið úr virkni hefðbundinnar peningamálastefnu auk þess sem víðtæk verð- og gengistrygging fjárskuldbindinga hefur haft sömu áhrif. Ótæpilegar vaxtahækkanir Seðlabankans hafa því ekki unnið á verðbólgu heldur verið undirrót ójafnvægis og gengissveiflna sem hafa valdið íslensku atvinnulífi miklum skaða," segir m.a.

Fréttabréf SA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert