Hæstiréttur hefur sýknað Samkeppniseftirlitið af þeirri kröfu Mjólkursamsölunnar og tengdra félaga, að Páll Gunnar Pálsson, forstjóri stofnunarinnar, víki sæti við rannsókn á ætluðum brotum fyrirtækjanna gegn samkeppnislögum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að forstjóranum bæri að víkja.
Mjólkursamsalan ehf., Auðhumla svf. og Osta- og smjörsalan sf. töldu að með réttu mætti draga óhlutdrægni Samkeppniseftirlitsins í efa vegna tiltekinna ummæla Páls Gunnars í fjölmiðlum og á fundi með lögmönnum fyrirtækjanna.
Hæstarétti þótti ekki sýnt að Páll Gunnar hefði sýnt af sér háttsemi sem væri til marks um að hann bæri slíkan hug til fyrirtækjanna að með réttu mætti telja hættu á að ómálefnaleg sjónarmið réðu gerðum hans.