Fyrsta mat Hafrannsóknastofnunarinnar á stærð 2007 árgangs þorsks bendir til að hann sé slakur, af svipaðri stærð og árgangarnir frá 2005 og 2006. Heildarstofnvísitala þorsks hækkaði um 12% frá mælingunni 2007, aðallega vegna eldri fisks, en vísitalan er þó lægri en árin 2002-2006.
Svonefnt vorrall Hafrannsóknastofnunar fór fram í 24. sinn dagana 26. febrúar til 18. mars. Þrír togarar voru leigðir til verkefnisins: Páll Pálsson ÍS, Ljósafell SU og Bjartur NK og auk þess tóku rannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson þátt í verkefninu. Alls var togað á 556 hefðbundnum rallstöðvum allt í kringum landið og auk þess voru tekin um 50 aukatog í útköntum og á grunnslóð.
Mest fékkst af þorski djúpt út af Norður- og Norðausturlandi, í Hvalbakshalla fyrir suðaustan land og á Halamiðum út af Vestfjörðum. Aldursgreindar vísitölur benda til að stærð veiðistofns, fjögurra ára fiska og eldri, sé í góðu samræmi við mat á ástandi stofnsins vorið 2007. Lengdardreifing þorsks var í samræmi við fyrri mælingar.
Árgangur 2004 mælist enn lélegur
Árgangurinn frá 2004 mælist sem fyrr mjög lélegur. Vísitala 9-12 ára fisks, árgangar 1997-2000, mælist nú nokkuð hærri en í fyrra og nálægt tvisvar sinnum hærri en hún var að meðaltali árin 2001-2006. Hafrannsóknastofnun segir, að það sé í samræmi við fyrra mat á hlutdeild þessara árganga í stofni og aflabrögð á vertíð sunnan- og suðvestanlands.
Meðalþyngd eftir aldri mælist nú svipuð eða ívið hærri en í fyrra en er þó enn nokkuð lægri en langtímameðaltal. Holdafar þorsks, þyngd miðað við lengd, var svipað og undanfarin þrjú ár, en undir meðaltali áranna frá 1993 þegar vigtanir hófust.
Heldur meira var af loðnu í þorskmögum en undanfarin ár og mest fannst af loðnu í þorski fyrir norðvestan og norðaustan land og við suðurströndina. Nær engin loðna var í þorski í Faxaflóa og Breiðafirði.
Mun minna af ýsu
Stofnvísitala ýsu lækkaði um fjórðung frá mælingunni 2007. Lengdardreifing ýsunnar bendir til að árgangar 2004-2006 séu um eða undir meðallagi. Stærð árgangs 2007 mældist yfir meðallagi, í samræmi við mælingar í haustralli og rækjuleiðöngrum árið 2007. Árgangur 2003 mældist stór líkt og í síðustu stofnmælingum en hefur þó minnkað frá mælingunni 2007, einkum sá hluti árgangsins sem hefur náð þeirri stærð að vera kominn í veiði.
Ýsan veiddist á grunnslóð allt í kringum landið, en vísitala ýsu lækkaði þó á flestum svæðum, mest fyrir vestan land og á Vestfjörðum. Meðalþyngd eftir aldri mældist nú nokkuð lægri en áætlað hafði verið. Holdafar ýsunnar var að meðaltali svipað og undanfarin ár, fremur lélegt fyrir norðan land en í meðallagi fyrir sunnan.
Vísitala sandkola aldrei lægri
Stofnvísitala skarkola var svipuð og árin 2004-2007 en er nú einungis rúmur fjórðungur af því sem hún var í upphafi ralls. Vísitölur þykkvalúru og langlúru mældust háar líkt og undanfarin fjögur ár, en lækkuðu þó frá 2007. Vísitala sandkola hefur aldrei mælst lægri en í rallinu í ár.
Stofnvísitala ufsa var svipuð og árið áður en lægri en árin 2004-2006. Vísitala gullkarfa mældist há líkt og verið hefur frá árinu 2003. Öryggismörk mælinganna hafa hinsvegar verið há þar sem tiltölulega mikið af karfaaflanum hefur fengist á fáum stöðvum.
Vísitala steinbíts hækkaði um 13% og er nú svipuð og árin 1996-1999. Miðað við fyrri stofnmælingar fékkst mikið af 60 cm og stærri steinbít en mun minna af 15-60 cm steinbít sem bendir til að nýliðun í veiðistofninn verði fremur léleg á komandi árum.
Stofnvísitala löngu var í ár sú næst hæsta sem mælst hefur í vorralli frá upphafi og vísitala keilu var nærri meðaltali. Mikið fékkst af skötusel fyrir sunnan og vestan land eins og undanfarin ár og stöku fiskar fyrir Norðurlandi.
Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali fremur hátt, en þó heldur lægra en undanfarin ár.Fyrir sunnan og vestan land var sjávarhiti víðast á bilinu 0-1°C yfir meðaltali áranna 1985-2007, en fyrir norðan og austan land var hitastig víða um eða undir meðaltali tímabilsins.