Kjarasamningar fela í sér hættu á launaskriði

Kjarasamningarnir voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Kjarasamningarnir voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. mbl.is/Golli


Nú liggja fyrir kjarasamningar stærstu aðila á almennum vinnumarkaði sem eflaust munu marka brautina fyrir kjarasamninga sem framundan eru. Á yfirborðinu virðist sem kjarasamningarnir gætu samrýmst verð bólgumarkmiðinu. Reynsla fyrri kjarasamninga sýnir hins vegar að niðurstaðan verður oft fjarri því sem upphaflega er lagt upp með. Þetta kemur  fram í nýútgefnum Peningamálum Seðlabanka Íslands.

„Varðandi þá kjarasamninga sem nú liggja fyrir er einkum tvennt sem veldur áhyggjum. Hið fyrra er að þótt meðalhækkun launa gæti samrýmst verðbólgumarkmiði eru lægstu laun hækkuð mun meira, eða um allt að þriðjung á þriggja ára tímabili. Þessar hækkanir gætu skriðið upp launastigann eins og gerðist eftir aukasamningana árið 2006, einkum ef ekki dregur nægilega hratt úr spennu á vinnumarkaði.

Hið síðara er að samningunum er ætlað að tryggja kaupmátt launa. Í því skyni eru ákvæði sem gætu leitt til frekari hækkunar ef ekki tekst að hemja verðbólgu, t.d. ef gengi krónunnar lækkar.  Efnahagsvandinn sem þjóðin stendur frammi fyrir er hins vegar ekki síst fólginn í því að kaupmáttur er meiri en útflutningstekjur standa undir. Verði komið í veg fyrir að raunlaun lækki verður meira atvinnuleysi," samkvæmt Peningamálum.

Á hinn bóginn er líklegt að hækkun lægstu launa skríði ekki jafn ört upp launastigann á næstu árum og gerðist árin 2006 og 2007 þegar mikill skortur var á vinnuafli, samkvæmt Peningamálum.

„Því er afar mikilvægt að dragi hratt úr þeirri miklu spennu sem ríkir á vinnumarkaði. Miðað við grunnspá eru miklar líkur á því að verðbólgu- og kaupmáttarákvæði kjarasamninga verði virk og heimilt verði að semja um viðbótarhækkun launa. Í spánni er ekki gert ráð fyrir að það leiði til mikilla viðbótarhækkana."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert