„Varahlutasali þarf oft að taka á sig kostnað sem hann veltir ekki út í verðlagið,“ segir Þór Marteinsson, deildarstjóri varahlutaverslunar Ingvars Helgasonar, en samkvæmt útreikningum Sjóvár er meðalhækkun á varahlutaverði frá umboðum 28,9% frá 31. janúar. Varahlutir frá Ingvari Helgasyni í Opel Vectra sem Sjóvá kannaði hækkuðu um 143% á tímabilinu.
Þór segir eðlilegt að verð á tilteknum varahlut sveiflist mikið, þar sem langt geti liðið á milli þess sem umboðið þarf að panta hann og forsendur verðútreikninga geti því breyst. „Ef varan kemur sjóleiðis og gengið er hagkvæmt verður varan ódýr. Ef hins vegar þarf að panta varahlut með flugi, t.d. sökum þess að tryggingafélag er ekki tilbúið til að greiða fyrir bílaleigubíl nema í nokkra daga, og gengið er í þokkabót óhagstætt, getur varan orðið mun dýrari.“
Þór bætir því við að Ingvar Helgason hafi komið vel út úr verðsamanburði við önnur bílaumboð. „Við fáum skammir í hattir fyrir þessar miklu sveiflur. En það verður að líta til þess að þegar verðið á varahlutunum er sem hæst hjá okkur, er það kannski svipað og hjá öðrum umboðum.“
Gísli Karel Eggertsson, verslunarsjóri hjá Heklu, kannast ekki við að varahlutir í Golf hafi hækkað um 30,5% eins og Sjóvá heldur fram. Þeir hafi hins vegar hækkað um 15 til 20%, sökum gengisbreytinga og aukins flutningskostnaðar.
Hann segir til athugunar hjá Sjóvá að umbuna þeim ökumönnum sem aka um á bílum sem ódýrt er að gera við.
hlynur@24stundir.is