Harpa Hrönn Stefánsdóttir, nýbökuð móðir sem býr í Danmörku, fær ekki krónu greidda úr fæðingarorlofssjóði þar sem hún var ekki í fullu námi ári áður en barn hennar fæddist. Hún fær heldur engan fæðingarstyrk í Danmörku þar sem hún hefur ekki búið nægilega lengi í landinu. „Mér finnst til háborinnar skammar hvernig komið er fram við námsmenn,“ segir Harpa.
Hún hóf mastersnám í menningarfræðum í Sviss haustið 2006. „Námið var á þýsku, en ég hafði ekki mikla þýskufærni fyrir utan það sem ég lærði í menntaskóla.“ Sökum tungumálaörðugleika lauk hún 63% af fullu námi fyrstu önnina.
Í byrjun annarrar annarinnar varð Harpa ólétt. „Ég bætti við mig aukaeiningum, ekki síst til að fá námslán fyrir veturinn,“ segir Harpa, en samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) er fullt nám metið yfir heilan vetur, þannig að nemanda gefst tækifæri til að bæta það upp á vorönn hafi hann ekki lokið fullu námi á haustönn. Auk þess veitir LÍN undanþágu frá reglum um námsframvindu á fyrstu önn nemanda í landi þar sem talað er tungumál sem er ekki eitt af fyrstu málum nemandans.
„Það hvarflaði ekki að mér að fæðingarorlofssjóður reiknaði þetta öðruvísi,“ segir Harpa. Þar sem barnið fæddist í nóvember (2007) gat Harpa ekki hafið nám á haustönn. „Maðurinn minn sótti um framhaldsnám í Danmörku, og það varð úr að við fluttum hingað með það fyrir augum að ég héldi áfram námi hér.
En þegar barnið fæddist fékk ég bréf frá fæðingarorlofssjóði þar sem mér er synjað um fæðingarstyrk vegna of fárra eininga á haustönn 2006.“
Samkvæmt reglugerð um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði þarf foreldri að hafa verið í 75-100% námi í a.m.k. sex mánuði af síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. „Ég get ekki betur séð en að þetta sé túlkunaratriði, því það er hvergi getið um annir eða skólaár í reglunum,“ segir Harpa og bendir á að ef miðað er við allt skólaárið áður en barnið fæddist hafi námsframvinda hennar verið 80% af fullu námi.
Harpa hefur kært niðurstöðuna til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála og rætt málið við félagsmálaráðherra, án árangurs.