Nýbökuð móðir fær engan fæðingarstyrk

Harpa, Úlfur og Guðjón þurfa að láta sér námslán Guðjóns …
Harpa, Úlfur og Guðjón þurfa að láta sér námslán Guðjóns nægja.

Harpa Hrönn Stef­áns­dótt­ir, ný­bökuð móðir sem býr í Dan­mörku, fær ekki krónu greidda úr fæðing­ar­or­lofs­sjóði þar sem hún var ekki í fullu námi ári áður en barn henn­ar fædd­ist. Hún fær held­ur eng­an fæðing­ar­styrk í Dan­mörku þar sem hún hef­ur ekki búið nægi­lega lengi í land­inu. „Mér finnst til há­bor­inn­ar skamm­ar hvernig komið er fram við náms­menn,“ seg­ir Harpa.

Hún hóf masters­nám í menn­ing­ar­fræðum í Sviss haustið 2006. „Námið var á þýsku, en ég hafði ekki mikla þýsku­færni fyr­ir utan það sem ég lærði í mennta­skóla.“ Sök­um tungu­mála­örðug­leika lauk hún 63% af fullu námi fyrstu önn­ina.

Í byrj­un annarr­ar ann­ar­inn­ar varð Harpa ólétt. „Ég bætti við mig auka­ein­ing­um, ekki síst til að fá náms­lán fyr­ir vet­ur­inn,“ seg­ir Harpa, en sam­kvæmt regl­um Lána­sjóðs ís­lenskra náms­manna (LÍN) er fullt nám metið yfir heil­an vet­ur, þannig að nem­anda gefst tæki­færi til að bæta það upp á vorönn hafi hann ekki lokið fullu námi á haustönn. Auk þess veit­ir LÍN und­anþágu frá regl­um um náms­fram­vindu á fyrstu önn nem­anda í landi þar sem talað er tungu­mál sem er ekki eitt af fyrstu mál­um nem­andans.

„Það hvarflaði ekki að mér að fæðing­ar­or­lofs­sjóður reiknaði þetta öðru­vísi,“ seg­ir Harpa. Þar sem barnið fædd­ist í nóv­em­ber (2007) gat Harpa ekki hafið nám á haustönn. „Maður­inn minn sótti um fram­halds­nám í Dan­mörku, og það varð úr að við flutt­um hingað með það fyr­ir aug­um að ég héldi áfram námi hér.

En þegar barnið fædd­ist fékk ég bréf frá fæðing­ar­or­lofs­sjóði þar sem mér er synjað um fæðing­ar­styrk vegna of fárra ein­inga á haustönn 2006.“

Sam­kvæmt reglu­gerð um greiðslur úr fæðing­ar­or­lofs­sjóði þarf for­eldri að hafa verið í 75-100% námi í a.m.k. sex mánuði af síðustu 12 mánuðum fyr­ir fæðingu barns. „Ég get ekki bet­ur séð en að þetta sé túlk­un­ar­atriði, því það er hvergi getið um ann­ir eða skóla­ár í regl­un­um,“ seg­ir Harpa og bend­ir á að ef miðað er við allt skóla­árið áður en barnið fædd­ist hafi náms­fram­vinda henn­ar verið 80% af fullu námi.

Harpa hef­ur kært niður­stöðuna til úr­sk­urðar­nefnd­ar fæðing­ar- og for­eldra­or­lofs­mála og rætt málið við fé­lags­málaráðherra, án ár­ang­urs.

Í hnot­skurn
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert