Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafa ákveðið að efna til samstarfs um rekstur á nýju búsetuúrræði með félagslegum stuðningi fyrir allt að 20 einstaklinga. Á næstu þremur árum mun félags- og tryggingarmálaráðuneytið leggja verkefninu til 85,6 milljónir króna.
Þetta segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Um er að ræða búsetuúrræði fyrir allt að 20 heimilislausa einstaklinga sem hætt hafa neyslu áfengis- og/eða vímuefna en þurfa á umtalsverðum stuðningi að halda til að ná tökum á lífi sínu.
Úrræðinu er ætlað að veita einstaklingum húsaskjól, félagslegan stuðning og endurhæfingu þannig að þeir geti búið sjálfstætt án vímugjafa og tekið virkan þátt í samfélaginu.
Þörf fyrir búsetuúrræði með öflugum félagslegum stuðningi hefur lengi verið fyrir hendi fyrir fólk sem á að baki margar áfengis- og vímuefnameðferðir en er ekki í stakk búið til að búa í sjálfstæðri búsetu.