Óljóst hvort forseti Íslands mætirhvort forseti Íslands mætir

Þótt Ólympíuleikarnir séu fyrst og fremst íþróttamót hafa þeir pólitíska þýðingu, sérstaklega þegar þeir eru haldnir af einræðisríki eins og Kína. Í þessu tilliti er opnunarhátíðin sérlega mikilvæg því á henni tjaldar gestgjafinn öllu því besta sem til er og leggur iðulega mikla áherslu á menningu og sögu þjóðarinnar. Óljóst er hvort Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, verður við opnunarhátíð leikanna í Beijing í ágúst.

Það vakti því töluverða athygli þegar Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynnti að hún myndi ekki mæta á opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Bejing, jafnvel þótt talsmaður Merkel hefði strax bætt við að ekki væri um að ræða mótmæli gegn aðgerðum Kínverja í Tíbet. Í kjölfarið sagði Nicholas Sarkozy, forseti Frakklands, að ekki væri útilokað að hann myndi hunsa opnunarhátíðina.

Forsetinn skuldbindur ekki forsetann

Þetta svar fékkst hjá Örnólfi Thorssyni forsetaritara: „Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur mótað þá stefnu, í ljósi þess að forsetakosningar verða í sumar, að ekki sé unnt að taka bindandi afstöðu til þátttöku forseta í atburðum á næsta kjörtímabili, sem hefst hinn 1. ágúst 2008, hvorki innanlands né utan, fyrr en ljóst verður hver gegnir þá embættinu. Eina undantekningin frá þessu er að ákveðið var í samráði íslenskra stjórnvalda fyrir tæpu ári að þiggja boð forseta Þýskalands um að forseti Íslands færi þangað í opinbera heimsókn í síðari hluta október 2008, hver svo sem þá gegndi forsetaembættinu.“

Þegar spurt var hvort Ólafur Ragnar færi á hátíðina, yrði hann enn forseti í haust, var vísað í þetta sama svar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra ætlar að taka þátt í opnunarhátíðinni í Beijing.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert