„Þetta hús [Turninn við Smáratorg] er ákaflega öruggt. Það má segja að háhýsi séu áhættusamari en lægri byggingar, en það er þá yfirleitt brugðist við því með því að auka mjög þann öryggisbúnað sem er í húsunum,“ segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Bjarni fundaði nú síðdegis með eigendum og rekstraraðilum Turnsins til að fara yfir eldsvoðann sem varð í tengibyggingu á annarri hæð hússins í gærkvöldi. Hann segir að það sé ávallt eitthvað sem megi betur fara en bendir á að allir mikilvægustu öryggisþættir hússins séu í mjög góðu lagi.
Aðspurður segir hann slökkviliðið vera vel í stakk búið að bregðast við ef eldur kviknar á efstu hæðum hússins, sem er það hæsta á Íslandi.
Engan sakaði í eldsvoðanum sem kviknaði á tíunda tímanum í gærkvöldi. Allt tiltækt slökkvilið var kallað á staðinn. Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins sem kviknaði í tengibyggingu Turnsins, sem fyrr segir. Framkvæmdir eru í gangi þar sem eldurinn kviknaði.
Veitingaaðstaða er á 20. hæð hússins og þar voru gestir þegar eldurinn kviknaði. Þá var fólk á 15. hæðinni þar sem líkamsræktarstöð er staðsett. Samkvæmt upplýsingum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og framkvæmdastjóra Veisluturnsins, sem rekur veitingaaðstöðuna á 19. og 20. hæð, gekk vel að rýma húsið.
Eldsupptök eru ókunn er lögreglan er með málið til rannsóknar.