Svíar gagnrýna hvalveiðar

Norrænu forsætisráðherrarnir á gönguferð í snjónum í Riksgränsen í Norður-Svíþjóð.
Norrænu forsætisráðherrarnir á gönguferð í snjónum í Riksgränsen í Norður-Svíþjóð. norden.org/Johannes Jansson

Vel fór á með norrænu forsætisráðherrunum á fundi þeirra um aukna samvinnu Norðurlandanna í Riksgränsen í Norður-Svíþjóð í vikunni. Sænska ríkisútvarpið segir, að það hafi þó vakið athygli að Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, hafi verið ómyrkur í máli þegar hann gagnrýndi hvalveiðar Norðmanna og Íslendinga. 

Sænska útvarpið segir, að það sé sjaldgæft að þessir þjóðarleiðtogar gagnrýni hver annan á fundum sínum en það hafi valdið greinilegum pirringi þegar Reinfeldt ræddi við sænska sjónvarpið um hvalveiðar Íslands og Noregs.

Sagðist Reinfeldt telja, að þjóðir ættu að virða þær skoðanir að halda yrði jafnvægi í náttúrunni og stunda því ekki hvalveiðar, að því er kemur fram á fréttavef sænska ríkisútvarpsins.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sagði hins vegar að hvalveiðar Norðmanna færu fram með sjálfbærum hætti og fylgt væri ráðleggingum vísindamanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert