Það er lífsins ómögulegt fyrir sveitarfélögin að reka framhaldsskóla ef þau geta ekki leyst úr einföldum álitaefnum varðandi rekstur tónlistarskóla, sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra á Alþingi í gær og vísaði til vandræðagangs með skólagjöld fyrir tónlistarnema sem sækja nám í öðrum sveitarfélögum.
Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði of mörg dæmi þess að nemendur þyrftu að greiða háar fjárhæðir fyrir tónlistarnám ættu þeir ekki lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi og spurði ráðherra hvenær „átthagafjötrum“ yrði létt af tónlistarnemendum landsins
Þorgerður sagði aftur á móti að ákvörðunin væri ekki á hendi ríkisins heldur sveitarfélaganna enda væru tónlistarskólar á þeirra ábyrgð. „Það er hins vegar alveg ljóst að breytingar á núverandi fyrirkomulagi verða ekki gerðar nema með breytingum á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarnema,“ sagði Þorgerður og áréttaði skoðun sína að grunn- og miðstig listnáms ætti að vera á forræði sveitarfélaga en framhaldsstigið á forræði ríkisins.