Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, heldur til Washington D.C. í Bandaríkjunum dagana 11.-13. apríl þar sem hún mun eiga fund með Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og sitja fund þróunarnefndar Alþjóðabankans.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að Ingibjörg Sólrún og Rice muni ræða framtíð öryggis- og varnarsamstarfs ríkjanna en í kjölfar brotthvarfs varnarliðsins árið 2006 var samþykkt að efla reglulegt pólitískt samráð. Verður útfærsla þessa samráðs til umræðu, auk viðskipta landanna og annarra mála.
Utanríkisráðherra mun svo funda með Women´s Foreign Policy Group, sem er félagsskapur áhrifakvenna um utanríkismál og taka þátt í morgunverðarfundi ráðgjafanefndar Alþjóðabankans um málefni kvenna.
Einnig mun Ingibjörg Sólrún sitja kjördæmisfund Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna til undirbúnings vorfundar þróunarnefndar Alþjóðabankans. Þá mun utanríkisráðherra ennfremur sitja sérstakan ráðherrafund Alþjóðabankans um loftslagsmál.