15 ára keypti vín með korti

Börn undir áfengiskaupaaldri fengu afgreitt vín á árshátíð starfsmanna McDonald's sem haldin var fyrir nokkru.

„Ég var efins um að leyfa barninu mínu að fara minnug þess sem gerðist á árshátíð Bónuss fyrir nokkrum árum og hringdi þess vegna í yfirmenn McDonald's og spurði hvort veitt yrði áfengi. Þeir sögðu að svo væri en tóku fram að mikið eftirlit yrði á staðnum þar sem um 70% allra starfsmanna væru undir áfengiskaupaaldri,“ segir móðir 15 ára starfsmanns McDonald's. Barn var afgreitt um drykki á barnum auk þess sem það fékk ávísun á áfengan drykk við komuna á árshátíðina. „Færslurnar fyrir drykkjunum eru á kortinu en barnið mitt lítur ekki út fyrir að vera deginum eldra en 15 ára,“ segir móðirin.

Magnús Ögmundsson, framkvæmdastjóri McDonald's, segist harma það ef einhverjir hafa komist yfir áfengi sem hafa ekki átt að gera það. „Með þessa reynslu endurskoðum við auðvitað hvernig við stöndum að árshátíðinni á næsta ári. Við þurfum að herða reglur, halda tvískipta árshátíð eða halda eingöngu árshátíð fyrir þá sem náð hafa lögaldri,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert