Af 278 opinberum stofnunum, fyrirtækjum og hlutafélögum sem formleg fyrirspurn var send vegna úttektar á seðilgjöldum svöruðu 246. Svarhlutfall var því 88,4%. Af svarendum kváðust 181 senda út kröfur og þar af 44 eða 24,3% leggja seðilgjald eða annan aukakostnað við aðalkröfu, þó ekki endilega við allar innheimtar kröfur hlutaðeigandi aðila.
Í febrúar sl. beindi viðskiptaráðherra tilmælum til fjármálafyrirtækja um afnám innheimtu seðilgjalda og sambærilegra fylgikrafna, sem neytendur hafa ekki átt kost á að samþykkja eða taka afstöðu til, til viðbótar við fjárhæð aðalkröfu.
Tilmæli ráðherra fólu ennfremur í sér að í þeim tilvikum sem samið hefur verið um greiðslu á seðilgjöldum og sambærilegum fylgikröfum við neytendur skuli fjárhæð gjaldsins endurspegla raunkostnað við útsendingu seðla, enda fái neytendur lögum samkvæmt reikning vegna viðskipta og að þeim standi til boða raunhæfur gjaldfrjáls valkostur, svo sem að greiða með millifærslu, að því er segir í tilkynningu.
Í kjölfar fyrirspurnar frá Umboðsmanni Alþingis fól viðskiptaráðherra Neytendastofu að gera úttekt á því í hvaða mæli opinberar stofnanir og fyrirtæki innheimtu slík gjöld. Niðurstöður úttektar Neytendastofu voru kynntar ráðherra hinn 8. apríl sl.
Í fyrirspurn Neytendastofu til opinberra stofnana og fyrirtækja var upplýsinga óskað um grundvöll innheimtu seðilgjalds eða sambærilegra fylgikrafna og fjárhæð, ef slík innheimta væri á annað borð tíðkuð.
Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um heimildir opinberra stofnana og fyrirtækja til gjaldtöku og lögmætisreglu stjórnsýslulaga í álitum sínum. Almennt er opinberum stofnunum og fyrirtækjum óheimilt að leggja gjald á einstaklinga nema á grundvelli skýrrar lagaheimildar. Niðurstöður Neytendastofu eru þær að af þeim opinberu stofnunum og fyrirtækjum sem þátt tóku í könnuninni og innheimta seðilgjöld eða sambærilegar fylgikröfur hafa einungis tvær stofnanir, Lánasjóður íslenskra námsmanna og Íbúðalánasjóður, vísað til fullnægjandi lagaheimilda til gjaldtökunnar.
Frekari skoðun af hálfu Neytendastofu leiddi reyndar í ljós að á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 og 13. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga megi mögulega grundvalla innheimtu seðilgjalda, þó svo að ekki hafi verið vitnað til umræddra réttarheimilda í svörum við fyrirspurn stofnunarinnar, enda byggi fjárhæð gjaldanna á raunkostnaði við innheimtu.
Að því er varðar fjárhæð seðilgjalda hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum sem innheimta slík gjöld er almennt um lágar fjárhæðir að ræða. Fram kemur í úttekt Neytendastofu, að ætla megi að gjald sem opinberar stofnanir og fyrirtæki innheimta gagnvart neytendum sé mun lægra og nær raunkostnaði en sambærileg gjaldtaka á almennum samkeppnismarkaði.
19 ætluðu að hætta að innheimta seðilgjöld
Í erindi sínu til opinberra stofnana og fyrirtækja óskaði Neytendastofa upplýsinga um hvort greiðandi kröfu gæti greitt hana með öðrum hætti, þannig að ekki kæmi til greiðslu seðilgjalds. Af þeim 44 aðilum sem innheimta seðilgjöld bjóða 32 greiðendum að semja um greiðsluleið. Þar af bjóða 14 stofnanir og fyrirtæki greiðendum upp á að greiða með öðrum hætti, án greiðslu seðilgjalds eða sambærilegs aukakostnaðar. Einkum voru boðgreiðslur, beingreiðslur, millifærslur í banka eða bein greiðsla á starfsstöð stofnunar/fyrirtækis nefnd í þessu sambandi.
Af þeim 44 opinberum stofnunum og fyrirtækjum sem innheimtu seðilgjöld kváðust 19 aðspurð ætla að hætta gjaldtökunni, en 19 hugðust ekki hætta henni. Sex höfðu ekki tekið ákvörðun um það, þegar fyrirspurn Neytendastofu var svarað.
Neytendastofa mun fylgja málinu eftir, en lögum samkvæmt hefur stofnunin úrræði á borð við álagningu stjórnvaldssekta gagnvart lögaðilum vegna óréttmætra viðskiptahátta, samkvæmt tilkynningu
Viðskiptaráðherra hefur farið þess á leit við Neytendastofu að gerð verði úttekt á innheimtu seðilgjalda og sambærilegra fylgikrafna á einkamarkaði. Kannaðar skulu fjárhæðir og grundvöllur slíkrar innheimtu, þ.e. hvort innheimtan byggist á samningi milli aðila eða öðrum grundvelli, sem og hvort greiðendum bjóðist að greiða kröfur með öðrum hætti þannig að ekki komi til greiðslu seðilgjalds.