Dómur fellur að öllum líkindum í dag í máli 25 ára Íslendings, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í Færeyjum frá því í september vegna aðildar að svonefndu Pólstjörnumáli. Tæknilega væri hægt að dæma manninn í 15 ára fangelsi en svo þung refsing er þó talin ólíkleg.
Íslendingurinn er m.a. ákærður fyrir að hafa tekið við rúmum 40 kílóum af fíkniefnum, sem siglt var með í skútu frá Danmörku til Færeyja og þaðan áfram til Íslands. Tólf manna kviðdómur auk dómara fjalla um málið og að sögn blaðsins Sosialurin í dag þarf kviðdómurinn að meta hvenær Íslendingurinn fékk að vita, að ferðatöskur, sem hann tók við og geymdi tímabundið í bíl sínum innihéldu fíkniefni.
Þá þurfi dómurinn að leggja mat á hver liðsveisla mannsins var þegar tveir aðrir Íslendingar fluttu fíkniefnin til Íslands.
Við húsleit hjá manninum fundust 782 grömm af amfetamíni og 982 grömm af e-töflum. Dómurinn þarf einnig að meta hvað maðurinn hafi ætlað að gera við þessi fíikniefni.
Komist kviðdómurinn að þeirri niðurstöðu að Íslendingurinn sé sekur þarf hann að ákveða refsingu sem getur að hámarki orðið 15 ár. Sosialurin segir þó ólíklegt að refsingin verði svo þung í ljósi þess, að fimm Íslendingar, sem fundnir voru sekir voru í sama máli á Íslandi í vetur, fengu frá 18 mánaða fangelsi til 9½ árs fangelsi.
Íslendingurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi í rúma 200 daga og þar af hefur hann sætt einangrunarvist í 170 daga. Íslensk stjórnvöld hafa gagnrýnt þessa löngu einangrun.