Eistland hefur formlega lýst yfir stuðningi við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Í bréfi frá utanríkisráðuneyti Eistlands frá 4. apríl síðastliðnum kemur fram að sendiherrar Eystrasaltslandanna hafi fundað með forseta Íslands í New York 2. apríl síðastliðinn þar sem hann hafi beðið þá að ýta úr vör herferð til stuðnings framboðinu.
Í bréfinu kemur fram að Eistar hafi ákveðið að lýsa yfir fullum stuðningi við framboðið og að diplómatar þeirra séu tilbúnir að vinna að framboði Íslands „hvenær og hvar sem það sé mögulegt án þess að búast við neinu í staðinn nema kannski góðvilja gagnvart framboði þeirra í framtíðinni.“
Styðjum Ísland á virkan hátt
Utanríkisráðherra Eistlands, Urmas Paet, segir í samtali við 24 stundir að margar ástæður séu fyrir stuðningi Eista við framboð Íslands til öryggisráðsins. „Ég vil taka það fram að við munum styðja Ísland á virkan hátt. Við munum beita okkur fyrir kjöri Íslands eftir öllum þeim diplómatísku leiðum sem við höfum. Ástæðurnar fyrir stuðningnum eru þær að við teljum nauðsynlegt að fámennar lýðræðisþjóðir eigi rödd í öryggisráðinu. Sömuleiðis er afar nauðsynlegt að þjóðir sem hafa beitt sér á alþjóðavettvangi fyrir mannréttindum, alþjóðalögum og þróunarsamvinnu sitji í ráðinu. Ísland hefur beitt sér fyrir öllum þessum málum á ábyrgan hátt í samstarfi þjóða og því styðjum við framboð ykkar með gleði.“