Metframleiðsla á mjólk

Árni Torfason

Aldrei hefur verið framleitt jafn mikið af mjólk á landinu og á síðasta ári eða 124 milljónir lítra. Þar af komu 112  milljónir lítra eða 91% mjólkurinnar frá framleiðendum Auðhumlu.  Aukning var á sölu mjólkur, hvort heldur sem miðað er við próteinmagn  eða fitu. Þetta kom fram á aðalfundi Auðhumlu í dag.

„Þrátt fyrir framleiðslu- og söluaukningu var rekstrarumhverfið erfitt  fyrir mjólkuriðnaðinn á síðasta ári. Heildarsala Auðhumlu nam 12,6 milljörðum króna á síðasta ári og var rekstrartap 588 milljónir króna  en að teknu tilliti til fjármagnstekna var tap ársins 196 milljónir króna.

Þetta var meðal annars vegna þess að iðnaðurinn tók á sig verðstöðvun á mjólk og mjólkurafurðum á síðasta ári sem kostaði  mjólkuriðnaðinn um einn milljarð króna. Efnahagur félagsins er traustur en eigið fé samstæðunnar var 8.206 milljónir króna um síðastliðin áramót og niðurstaða efnahagsreiknings var 12.131 milljón króna þannig að eiginfjárhlutfallið er 68%," samkvæmt fréttatilkynningu.

Rekstur Auðhumlu er á þremur sviðum. Í fyrsta lagi er það rekstur 
Mjólkursamsölunnar sem er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins í landinu,  í öðru lagi er það fasteignarekstur og í þriðja lagi fjármál og 
fjárfestingar.

128 tonn af skyri flutt út

Fram kom á fundinum að tilraunir með útflutning á mjólkurafurðum hafa gengið ágætlega á  undanförnum árum og er lögð áhersla á að auka magn skyrs í þeim  útflutningi.

Á síðasta ári var útflutningur skyrs 128 tonn en heildartútflutningur allra mjólkurafurða voru rífleg 1.000 tonn til  samanburðar. Skyr er nú selt á þremur svæðum í Bandaríkjunum: Washington svæðinu, í New York og  Boston, Bretlandi og Lúxemborg.

Á aðalfundinum varð sú breyting á stjórn félagsins að úr stjórn gekk 
Haraldur Þórarinsson, Laugardælum, en í staðinn var kosinn Björn  Harðarson. Stjórn félagsins skipa í dag Egill Sigurðsson, Erlingur Teitsson, Guðrún Sigurjónsdóttir, Stefán Magnússon, Birna  Þorsteinsdóttir, Hörður Grímsson og Björn Harðarson. Að loknum aðalfundi skipti stjórn félagsins með sér verkum. Stjórnarformaður er  Egill Sigurðsson, varaformaður stjórnar er Erlingur Teitsson og  ritari stjórnar er Guðrún Sigurjónsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert