Umferðarstofa segir að ekki megi gleymast í umræðunni um öryggi í umferðinni sú mikilvæga ábyrgð sem ökumenn beri sjálfir. Að þeir hagi akstri samkvæmt aðstæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umferðarstofu.
Tilkynningin er eftirfarandi:
„Í tilefni þeirrar umræðu sem nú er uppi varðandi merkingar og frágang á vegavinnusvæðum vill Umferðarstofa taka eftirfarandi fram. Mikilvægt er að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir á framkvæmdasvæðum til að komið sé í veg fyrir að slys hljótist af mistökum ökumanna. Í umræðunni sem nú er uppi hefur hinsvegar lítið farið fyrir umfjöllun um mikilvægi þeirrar ábyrgðar sem ökumenn bera sjálfir. Að þeir hagi akstri samkvæmt aðstæðum.
Það er ljóst að fjöldi ökumanna fer ekki eftir þeim hraðatakmörkunum sem Vegagerðin hefur sett upp á framkvæmdasvæðum og ástunda jafnvel framúrakstur við mjög hættulegar aðstæður þrátt fyrir skýrt bann þar um. Það er því full ástæða til að ítreka og taka undir tilmæli Vegagerðarinnar um að vegfarendur sýni aðgát þegar ekið er um framkvæmdasvæði Reykjanesbrautar sem og annarstaðar og að mikilvægt sé að virða hraðatakmarkanir.
Tekið skal fram að slysið í fyrradag á Reykjanesbraut varð við erfiðar veðurfarslegar aðstæður. Rannsókn málsins er á frumstigi en að svo stöddu bendir ekkert til þess að orsök megi rekja til gáleysislegs aksturslags.“