Ríkissaksóknari með fullt sjálfstæði

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá kröfu manns, sem vildi að ógilt yrði með dómi sú ákvörðun ríkissaksóknara að ljúka opinberri rannsókn á andláti 2 ára dóttur mannsins.

Segir dómurinn að ríkissaksóknari njóti fulls sjálfstæðis í starfi sínu og það sé hans að meta hvort grundvöllur sé fyrir því að halda rannsókn mála áfram eða hætta henni. Dómstólar hafi ekki vald til að ógilda slíka ákvörðun.

Barnið lést árið 2006. Dánarorsök var ekki ljós en krufning leiddi ekkert óeðlilegt í ljós. Sýslumaður taldi ekki grundvöll til að rannsaka málið frekar en sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara, sem lagði fyrir sýslumann að taka skýrslu af móður barnsins. Eftir þá skýrslutöku skrifaði lögregla bréf til ríkissaksóknara þar sem segir að engar grunsemdir hafi komið upp um að utanaðkomandi þættir hefðu á nokkurn hátt átt þátt í láti barnsins. Ríkissaksóknari taldi þá ekki ástæðu til frekari rannsóknar en faðirinn sætti sig ekki við þá ákvörðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert