Sýknaður af ákæru fyrir nauðgun

Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir að hafa hafa haft samræði við konu, sem ekki gat spornað við  sökum ölvunar og svefndrunga.

Maðurinn viðurkenndi að hafa haft samræði við konuna eftir samkvæmi í húsi í ágúst í fyrra en neitaði því staðfastlega að hafa nýtt sér ástand konunnar.

Meirihluti fjölskipaðs héraðsdóms komst að þeirri niðurstöðu, að leggja yrði til grundvallar framburð konunnar um að hún hafi verið með nokkurri meðvitund á meðan maðurinn leitaði á hana. Að þessu virtu þyki ölvunarástand hennar og svefndrungi ekki geta skýrt það hvers vegna konan spornaði ekki við athöfnum mannsins og kallaði ekki eftir hjálp.

Þá verði einnig að telja að svefndrungi og ölvun hafi ekki orðið til þess að konan skildi ekki þýðingu athafna mannsins. Telur dómurinn að líta verði svo á að maðurinn hafi mátt ætla að konan hafi verið meðvituð um atlot hans og ekki verið þeim mótfallin.

Einn dómari af þremur skilaði séráliti og vildi sakfella manninn. Segist hann ósammála þeirri ályktun meirihluta dómsins að sýkna manninn vegna þess að hann hafi ekki haft ásetning til þess að nýta sér ölvun og svefndrunga konunnar í þeim tilgangi að hafa við hana kynmök sem hún gat ekki spornað við vegna ástands síns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert