Ungir framsóknarmenn kalla eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar

Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík kallar eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að endurheimta þann stöðugleika í efnahagslífi þjóðarinnar sem ríkti í ríkisstjórnartíð framsóknarmanna. Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu.

„ Mikilvægt er að glutra ekki árangri síðustu ára niður með aðgerðarleysi og dauflyndi. Því telja ungir framsóknarmenn í Reykjavík brýnt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefjist nú þegar handa við að tryggja að hér verði ekki brotlending í atvinnulífinu með tilheyrandi gjaldþrotum, atvinnuleysi og landflótta.

Ljóst er að stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og aðgerðir Seðlabankans í peningamálum vinna ekki saman nú um stundir og telja margir afleiðingu síðustu stýrivaxtahækkunar þá að íslenskt atvinnulíf innleiði evru án aðkomu ríkisvaldsins. Lokadagar íslensku krónunnar séu því í nánd.
 
Ungir framsóknarmenn í Reykjavík hvetja ríkisstjórnina til að hefja nú þegar aðildarviðræður við Evrópusambandið með inngöngu í huga. Ljóst er að staða íslensks efnahagslífs og hagsmunir þjóðarinnar kalla á að það verði gert.
 
Kröftugt og framsækið atvinnulíf ásamt öflugu velferðarkerfi er forsenda þess að Ísland sé samkeppnishæft við aðrar þjóðir hvað varðar aðlaðandi búsetu fyrir ungt fólk. Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til aðgerða verður hún að biðjast lausnar og fela ábyrgum aðilum að taka hér við stjórnartaumunum. Framsóknarflokkurinn mun ekki skorast undan í þeim efnum.
 
Menntamál
 
Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík kallar eftir breytingum á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Mikilvægt er að námslán mæti raunverulegri framfærsluþörf og að lánin séu greidd út mánaðarlega í stað þess að námsmenn þurfi að brúa bilið frá upphafi náms þar til lánin eru greidd út með himinháum yfirdráttarvöxtum.

Þá er nauðsynlegt að milda áhrif óhagstæðrar gengisþróunar fyrir kjör íslenskra námsmanna erlendis og því brýnt að kanna útfærslu þess að námsmenn fá greitt í mynt þess lands sem þeir stunda nám í. Aðeins með öflugu menntakerfi er hægt að tryggja framsæknu atvinnulífi aðgang að vel menntuðu vinnuafli.
 
Þá minna ungir framsóknarmenn í Reykjavík á áform Framsóknarflokksins um að þriðjungur námslána breytist í styrk hjá þeim sem ljúka námi á tilskyldum tíma. Samfylkingin var með svipað stefnumál á sinni dagskrá fyrir síðustu kosningar, sem og að námsbækur í framhaldsskólum verði ókeypis. Samfylkingin hlýtur að beita sér gagnvart menntamálaráðherra til að ná þessum stefnumálum fram.
 
Húsnæðismál
 
Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík fagnar hugmyndum sem forysta Framsóknarflokksins hefur lagt fram um aukið hlutverk Íbúðalánasjóðs við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar. Vegna lánsfjárerfiðleika bankanna hefur orðið snöggur samdráttur á fasteignamarkaði og spáð er verulegri raunlækkun íbúðarhúsnæðis.

Ljóst er að grípa verður til aðgerða til að forða almenningi frá fjöldagjaldþrotum. Því er mikilvægt að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs og miða við markaðsvirði eigna þegar horft er til veðrýmis. Þá verði Íbúðalánasjóði gert kleyft að bjóða yfirtöku á fasteignalánum banka sem eru undir tilteknum fjárhæðarmörkum.
 
Lenging fæðingarorlofs
 
Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík telur rétt að hefja nú þegar undirbúning lengingar fæðingarorlofs í 12 mánuði. Framsóknarflokkurinn hafði forystu um að fæðingarorlof var lengt upp í 9 mánuði samhliða því sem barni voru tryggðar samvistir við bæði föður og móður við orlofstöku. Eðlilegt er að horfa til næstu skrefa í þessum efnum og vilja ungir framsóknarmenn í Reykjavík að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði ásamt því sem leitað verði leiða til að efla dagvistunarúrræði frá lokum fæðingarorlofs þar til leikskólavistun tekur við."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert