Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra átti fund með Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Washington DC í dag. Helstu atriði sem þær ræddu voru efling samstarfs kvenutanríkisráðherra, áritanir fyrir Íslendinga sem sinna viðskiptum í Bandaríkjunum og öryggissamstarf, að því er kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Ingibjörg og Condoleezza lýstu miklum áhuga á því að efla samstarf þeirra kvenna sem gegna stöðu utanríkisráðherra og voru sammála um að ein lykiláherslan í slíku samstarfi væri ályktun Sameinuðu þjóðanna númer 1325 um konur, frið og öryggi.
Viðskipti ríkjanna voru einnig á dagskrá fundarins, einkum áritanir fyrir þá sem sinna viðskiptum við Bandaríkin og þurfa að dvelja þar til lengri eða skemmri tíma. Lagði Ingibjörg Sólrún á það áherslu að Íslendingar kæmust í hóp þeirra þjóða sem eru undanþegnar kröfu um áritun til Bandaríkjanna fyrir viðskiptamenn.
Varnar- og öryggismál voru ofarlega á baugi á fundi ráðherranna, sem ræddu ástand mála í Mið-Austurlöndum og Afganistan, Norðurslóðir, og öryggissamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Ræddu þær þá enda sem hnýta þarf í kjölfar brotthvarfs Bandaríkjahers 2006 og framhald reglubundins öryggissamráðs ríkjanna, en næsti fundur innan þess ramma verður á milli íslenskra og bandarískra embættismanna þann 30. apríl.
Öryggissamstarf ríkjanna var einnig rætt á fundi sem Ingibjörg Sólrún átti með Eric S. Edelman aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna fyrr um daginn, auk þess sem ástandið og uppbyggingarstarf alþjóðasamfélagsins í Afganistan bar á góma.